Aðalfundur SART var haldinn á Grand hótel föstudaginn 11 mars .

Fundinn sóttu fulltrúar rafverktaka af öllu landinu og að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum kynnti Hjörleifur Stefánsson formaður SART niðurstöðu stefnumótunarvinnu SART þar kom fram að SART hefur sett sér megin markmið í starfi samtakanna undir yfirskriftinni Hæfur mannauður, Skilvirkt regluverk, Markviss nýsköpun og Sterk neytendavitund. Nánari upplýsingar um stefnu SART fram til ársins 2025 verður á næstu dögum sett inn á heimasíðu SART.

Árni Sigurjónsson formaður Samtaka iðnaðarins ávarpaði fundarmenn og fór meðal annars yfir þá ákvörðun stjórnar SI að gera árið 2022 að ári Grænnar iðnbyltingar. Þá ræddi hann ítarlega stöðu iðnfyrirtækja inn í komandi kjaraviðræðu og fór yfir niðurstöður kortlagningar SI á kjaraáherslum ólíkra undirhópa.

Þór Pálsson framkvæmdastjóri RAFMENNT fjallaði um starfsemi fræðslusetursins. Undanfarin ár hefur aukin áhersla verið var lögð á fjarkennslu en kórónuveirufaraldurinn hraðaði þeirri þróun. Samtal milli meistara, Iðunnar, Rafmennt og stjórnvalda jókst til muna á árinu. Stofnað verður nýtt félag sem heitir Nemastofa atvinnulífsins sem á að tryggja að samtal eigi sér stað milli ólíkra aðila sem koma að menntun rafverktaka og annarra iðnaðarmanna. Þá fór framkvæmdastjóri RAFMENNTAR yfir rafræna ferilbók og varpaði upp útgáfu 1 félagsmönnum til upplýsingar. Þór hvatti félagsmenn til þess að taka að sér nema, það væri grundvallaratriði í menntun allra iðnaðarmanna að þau fengju starfsþjálfun hjá fyrirtækjum á markaði. Að lokum óskaði hann eftir því að félagsmenn myndu sækja sér smáforritið RAFMENNT sem er nýtt smáforrit fyrir einstaklingsmiðað áhættumat.

Fundarmönnum var tíðrætt um menntamál í rafiðnaði lagði Hjörleifur Stefánsson formaður SART eftirfarandi ályktun fyrir fundinn sem samþykkt ályktunina einróma.

Aðalfundur SART haldinn 11. mars 2022 lýsir yfir áhyggjum af þeim mikla fjölda nema sem sótt hafa um nám í rafiðngreinum en ekki komust að hjá verknámsskólum landsins. SART skorar á verknámsskólana að fjölga nemaplássum svo hægt sé að svara þessari ásókn í nám í rafiðngreinum. Á sama tíma ætla félagsmenn SART að leita allra leiða til að fjölga nemaplássum hjá fyrirtækjum sínum

 

Að aðalfundi loknum buðu Johan Rönning, Reykjafell og Smith & Norland fundarmönnum til hádegisverðar áður en haldið var í skoðunarferð í Jarðhitasýningu ON á Hellisheiði. En einnig fékk hópurinn kynningu frá VAXA life sem framleiðir smáþörunga í fullkominni verksmiðju í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar.