Orlofshúsið Ásgarði í Grímsnesi
Orlofshús samtakanna er staðsett í fallegu umhverfi í landi Ásgarðs í Grímsnesi, ekki langt frá Álftavatni. Húsið stendur nokkuð hátt með góðu útsýni til allra átta m.a. yfir "Fljótið helga" en svo kallaði Tómas Guðmundsson skáld Sogið. Landið er kjarri vaxið og auðvelt er að finna skjól í hraunbollum allt í kringum húsið.
Húsið er veglega búið húsgögnum ásamt eldhús- og borðbúnaði fyrir 12 manns. Svefnsstæði og sængur eru fyrir 6, þ.e.a.s. tvö herbergi með hjónarúmum í húsinu og eitt í gestahúsi. Auk þess er svefnloft með dýnum sem auðveldlega rúma 5-7 til viðbótar. Þá fylgir húsinu gasgrill og garðhúsgögn. Á grasflötinni framan við húsið er fótboltamark og sandkassi fyrir börn á öllum aldri. Hitaveita, heitur pottur og sólpallur gerir það að verkum að húsið er vinsæll hvíldarstaður jafnt að sumri sem vetri.
ATH. Bannað er að hafa hunda eða önnur gæludýr með sér í húsið.
Dægradvöl
Auðvelt er að stunda golf frá Ásgarði. Golfvellir eru í Hveragerði, Þorlákshöfn, Selfossi, Öndverðarnesi, Kiðjabergi, Flúðum, Geysi, Laugarvatni og Úthlíð. Auk þess er 9 holu æfingavöllur á Írafossi / Ljósafossi.
Sundlaugar eru á Minni-borg, Selfossi og í Hveragerði. Þá er einnig stutt í söluskálann við Þrastarlund sem selur ýmislegt til nota í sumarbústöðum. Einnig er stutt að skreppa á Selfoss til að versla nauðsynjar.
Ef fara á í skoðunarferðir um nágrennið þá er stutt að fara t.d. í Sogsvirkjanir, Nesjavallavirkjun, Þingvelli, Kerið, Gullfoss, Geysi, Skálholt, Laugarás, Reyki og Sólheima í Grímsnesi, svo fátt eitt sé nefnt.
Þeir sem hafa áhuga á veiði geta farið t.d. í Úlfljótsvatn eða Þingvallavatn og eru veiðileyfin í Úlfljótsvatn seld á Efri brú en veiðileyfin í Þingvallavatn í þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Þá selja bændur einnig veiðieyfi í Brúará.
Hægt er að sækja um og fá nánari upplýsingar hjá umsjónarmanni hússins í síma 894-4026 - Kristjan@si.is
Lausar vikur/helgar
Yfir sumartímann er að öllu jöfnu úthlutað viku í senn, frá föstudegi til föstudags
(hægt er að leigja helgi ef vikan er laus).
Haust vetur og vor eru leigðar út helgar (frá kl. 15:00 föstudag til kl. 12:00 mánudag).
Helgarleiga kr. 25.000 og vikuleiga kr. 50.000
Lausar helgar og vikur, vetur og vor 2025
Janúar: 17-20 24-27
Febrúar: 31/1 - 3 | 7-10 | 14-17
Mars: 28/2-3 | 7-10 | 14-17 | 21-23 | 28-31
Apríl: 4-7 | 11-14