(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Auglýst eftir umsóknum um styrki vegna vinnustaðanáms nema

Fyrirtæki og stofnanir geta nú sótt um styrki til að taka á móti nemum í vinnustaðanám á tímabilinu 1. nóvember 2024 til 31. október 2025. Umsóknarfrestur er til 17. nóvember 2025 kl. 15:00.

Vinnustaðanámsstyrkir eru veittir fyrirtækjum og stofnunum sem taka á móti nemendum í starfsnámi sem hluti af námi og fer fram samkvæmt staðfestum vinnustaðanámssamningi í rafrænni ferilbók nemandans.

Skilyrði og uppfærðar úthlutunarreglur

Til að styrkur fáist þarf vinnustaðanámssamningur að hafa verið stofnaður í rafrænni ferilbók fyrir umsókn. Úthlutunarreglur sjóðsins voru uppfærðar þann 25. september 2025 og mikilvægt er að umsækjendur kynni sér þær áður en umsókn er send inn.

Mikilvægt framlag atvinnulífsins

Markmið vinnustaðanámssjóðs er að hvetja atvinnulífið til þátttöku í starfsnámi nemenda og stuðla þannig að því að þeir geti lokið tilskildu vinnustaðanámi. Með þátttöku í slíku námi veita fyrirtæki og stofnanir mikilvægt framlag til menntunar framtíðarstarfsfólks.

 Samtök rafverktaka hvetja aðildarfyrirtæki sín til að nýta sér þessa styrki og taka virkan þátt í að efla starfsnám og tryggja aðgengi nemenda að fjölbreyttu og raunhæfu vinnustaðanámi.

 

   

Stefnumótun Sart

Stefnumótunardagur Sart var haldinn föstudaginn 17. október sl. á Hótel Keflavík. Vinnunni stjórnaði Arndís Ósk Jónsdóttir, ráðgjafi hjá Change Incorporated.

Markmið stefnumótunarinnar var meðal annars að skilgreina áherslur og verkefni sem vinna skal að fram til ársins 2030. Þegar búið verður að vinna úr niðurstöðum fundarins verða þær rækilega kynntar fyrri félagsfólki Sart.

Þátt tóku rúmlega 30 félagsmenn frá öllum aðildarfélögum Sart en Rafverktakafélag Suðurnesja sá um undirbúning fundarinns sem tókst í alla staði vel.

 

Windows 10 er ekki hætt – en öryggið er veikara


Grein eftir Hjört Árnason, formann Félags rafeindatæknifyrirtækja
Frá og með 14. október 2025 hefur Microsoft formlega hætt að styðja Windows 10 stýrikerfið. Þetta þýðir að öryggis- og hugbúnaðaruppfærslum hefur verið hætt, og notendur eru ekki lengur varðir gegn nýjum veikleikum í kerfinu. Þrátt fyrir það eru um 250 milljón Windows 10 tæki enn virk um heim allan – og þau hætta ekki að virka. En það er mikilvægt að átta sig á því hvað breytingin þýðir í raun og veru – og hvernig við sem notendur, þjónustuaðilar og fyrirtæki bregðumst við.
Hætt við að uppfærsluleysi leiði til veikleika
Að stýrikerfi fái ekki lengur öryggisuppfærslur þýðir að Microsoft mun ekki bregðast við nýjum veikleikum eða hættum sem upp kunna að koma. Þetta nær einnig til innbyggðrar vírusvarnar (Microsoft Defender), sem margir notendur hafa treyst á í stað sérstakra öryggislausna. Afleiðingin er að stýrikerfið verður smám saman viðkvæmara fyrir netárásum, sérstaklega ef notendur grípa ekki til viðeigandi varna.
Áhrif á hugbúnaðarstuðning og þjónustu
Hugbúnaðarframleiðendur snúa athygli sinni að nýjustu kerfum, sem þýðir að uppfærslur og stuðningur við hugbúnað sem keyrir á Windows 10 verða síður forgangsverkefni. Með tímanum gæti það leitt til þess að nýr hugbúnaður virki illa eða alls ekki á eldra stýrikerfi.
Þá hefur Microsoft einnig hætt allri tæknilegri þjónustu við Windows 10, sem eykur mikilvægi þess að notendur geti sjálfir eða með aðstoð þjónustuaðila haldið kerfum sínum öruggum og gangandi.
Hægt að nota áfram – með varúð
Það er hægt að halda áfram að nota Windows 10, en þá þarf að gera það með opnum augum og vandaðri öryggisstefnu. Fyrirtæki sem hafa hingað til treyst á innbyggða vörn frá Microsoft ættu að endurskoða öryggismál sín. Margir notendur hafa til dæmis innleitt lausnir frá sérhæfðum öryggisfyrirtækjum, s.s. Trend Micro.
Það er þó ekki nóg að setja upp góða vörn – því veikasti hlekkurinn í keðjunni er gjarnan notandinn sjálfur. Forvitni, mistök eða skortur á fræðslu getur gert annars traust kerfi viðkvæmt. Regluleg fræðsla og skýrar öryggisreglur skipta þar miklu máli.
Breiðari sýn á öryggi
Við sem störfum á sviði rafeindatækni sjáum að öryggi snýst ekki aðeins um tölvukerfi. Öll snjalltæki, símkerfi og netbúnaður þurfa reglulegar uppfærslur og vandaða uppsetningu. Eldveggir, aðgangsstýringar og örugg skýjaþjónusta eru orðin nauðsynleg grunnstoð í upplýsingatækniumhverfi fyrirtækja – stórra sem smárra.
Við hvetjum fyrirtæki til að líta á þessar breytingar sem tækifæri til að meta stöðu sína og gera raunhæft mat á öryggisáhættu.
Hvernig veit ég hvort ég er með Windows 10?
Ein leiðin til að greina á milli er að skoða Start-hnappinn:
• Ef hann er hvítur, er um Windows 10 að ræða.
• Ef hann er blár, þá er það Windows 11.
Einnig má fara í Start-leitina og slá inn Windows Specifications til að sjá nákvæmar upplýsingar um útgáfu og útgáfunúmer.
________________________________________
Sterkari öryggismenning – sameiginlegt verkefni
Lok stuðnings við Windows 10 minnir okkur á að stafræn öryggismál eru síbreytileg og snerta alla – hvort sem við erum einstaklingar, þjónustuaðilar eða stjórnendur fyrirtækja. Með því að fylgjast með þróun, taka upplýstar ákvarðanir og innleiða viðeigandi lausnir getum við haldið áfram að nýta tæknina á öruggan og ábyrgan hátt.
________________________________________
Höfundur er formaður Félags rafeindatæknifyrirtækja og framkvæmdastjóri H. Árnason ehf.

Tækifæri í framleiðslu og geymslu birtuorku

 

Samtök rafverktaka (SART) stóðu nýverið fyrir fræðslufundi undir yfirskriftinni Tækifæri í framleiðslu og geymslu birtuorku á Íslandi. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Rafmenntar og var vel sóttur af fagfólki í rafiðnaði og tengdum greinum en einnig var fjöldi fagaðila sem fylgdist með beinu streymi frá fundinum.


Fjölbreytt erindi um þróun birtuorku
Á fundinum héldu þrír sérfræðingar framsögu:
• Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor
• Rúnar Kristjánsson, löggiltur rafverktaki A&B og verkefnastjóri hjá Tengli ehf.
• Óskar Frank Guðmundsson, sérfræðingur í rafmagnsöryggi HMS

Mikil tækifæri fólgin í nýtingu birtuorku
Linda kynnti starfsemi og verkefni Alor á sviði birtuorku. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er áætlað að fimm kerfi frá Alor muni framleiða samtals 70,5 MWst á ári. Einnig sagði Linda frá þróunarverkefni þar sem notaðar rafhlöður úr rafbílum eru endurnýttar í geymslukerfi sem safna t.d. umframorku frá sólarorkuverum og skila henni aftur inn í kerfið þegar eftirspurn skapast.


Hönnun og uppsetning birtuorkuvera
Rúnar hjá Tengli ehf. fjallaði  um ferli við hönnun og uppsetningu birtuorkuvera, þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi samráðs við hagaðila á borð við skipulagsyfirvöld, veitufyrirtæki og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Í erindi sínu fór Rúnar yfir lykilatriði í tæknilegri útfærslu birtuorkuvera og hvernig framleiðslugeta þeirra getur haft áhrif á þær kröfur sem gerðar eru til uppsetningar, samþykkis og rekstrar. Þá kom fram að vel skipulagt samráð snemma í ferlinu geti dregið úr töfum og stuðlað að aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku.


Reglur og ábyrgð í orkuvinnslu
Að lokum fjallaði Óskar um reglur og öryggiskröfur sem gilda um orkuframleiðslu í neysluveitum. Í erindi hans komu fram eftirfarandi lykilatriði:
• Öll uppsetning birtuorkuvera þarfnast aðkomu löggiltra rafverktaka og telst tilkynningarskyld.
• Allar orkuframleiðandi einingar, óháð stærð, þarf að tilkynna til viðkomandi dreifiveitu.
• Dreifing og sala á raforku krefst ábyrgðarmanns og öryggisstjórnunarkerfis.
• Framleiðsla yfir 11 kW, jafnvel þó hún sé til eigin nota, þarfnast ábyrgðarmanns og öryggisstjórnunarkerfis.


Vaxandi áhugi og mikilvægt aðhald
Fundurinn endurspeglar vaxandi áhuga á sjálfbærri orkuframleiðslu á Íslandi og mikilvægi þess að farið sé að reglum og viðeigandi verklagi við uppsetningu og rekstur birtuorkukerfa.
Samtök rafverktaka fagna umræðu sem þessari, sem stuðlar að öruggri nýtingu endurnýjanlegrar orku, skýru regluverki og öflugri tækniþróun í þjónustu við græna framtíð.
Upptaka frá fundinum er aðgengileg á Youtube rás Rafmenntar: Sjá hér

 

 

 

 

 

Fræðslufundur Sart 9. október

Vakin er athygli á fræðslufundi Sart sem haldinn verður 9. október.

Skraning er nauðsynleg:  https://forms.office.com/e/bU1Ej4ebZe

 

Skortur á faglærðu rafiðnaðarfólki ógnar samkeppnishæfni – staðan er einnig alvarleg á Íslandi

Grein á Vísi vekur athygli á manneklu í rafiðnaði í Evrópu – íslenska menntakerfið ræður ekki við eftirspurnina.

Í nýlegri umfjöllun á Vísi eftir Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóra Sart er fjallað um þann vanda sem blasir við í mörgum Evrópulöndum vegna skorts á faglærðu rafiðnaðarfólki. Vaxandi verkefni í tengslum við orkuskipti, rafvæðingu samgangna og stækkun orkuinnviða hafa skapað mikla eftirspurn eftir menntuðu starfsfólki, en nýliðun í greininni heldur ekki í við þörfina. Í greininni er byggt á gögnum samtakanna EuropeOn, sem Samtök rafverktaka (SART) eiga aðild að.

Í gögnum EuropOn kemur fram að sé ekki brugðist við manneklu og hindrunum í menntakerfinu, er hætta á að orkutengd uppbygging og græn orkuskipti í Evrópu muni dragist verulega.

Íslenskt skólakerfi ræður ekki við áhuga nemenda

Svipaða þróun má sjá hér á landi. Áhugi á námi í rafiðngreinum er mikill og stöðug eftirspurn er á vinnumarkaði eftir faglærðu rafiðnaðarfólki. Hins vegar ráða framhaldsskólarnir ekki við þann fjölda sem sækir um – einkum vegna skorts á fjármagni, aðstöðu og kennslutækjum.

Þessi staða kemur sérstaklega niður á fullorðnu fólki sem hyggst ljúka námi í kvöldskóla. Fjöldi umsækjenda kemst ekki að vegna þess að hvorki er til staðar næg aðstaða né fjárveitingar sem gera skólunum kleift að fjölga nemendum. Þannig verður eftirspurn eftir námi ekki mætt, þrátt fyrir skýra þörf og vilja til að hefja eða ljúka námi.

Samtök rafverktaka kalla eftir úrbótum

SART hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að auka framlög til rafiðnnáms, bæta aðstöðu í skólum og tryggja að námið sé aðgengilegt bæði ungmennum og fullorðnum sem vilja mennta sig á þessu sviði. Ef ekki tekst að tryggja nægilegt framboð af menntuðu fagfólki mun það hafa áhrif á hraða orkuskipta og getu samfélagsins til að bregðast við loftslagsáskorunum.

Að mati SART er tímabært að stokka upp forgangsröðun í fjárveitingum til framhaldsskólanna og koma á fót markvissum aðgerðum sem styðja við nýliðun í rafiðnaði. Þar þarf að horfa sérstaklega til kvöldnáms og endurmenntunar, sem gegna lykilhlutverki í að fjölga faglærðu fólki á vinnumarkaði.


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.