(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Ný stjórn FLR kjörin á aðalfundi 2024


Aðalfundur Félags löggiltra rafverktaka (FLR) fór fram miðvikudaginn 6. nóvember 2024 í Húsi atvinnulífsins. Á fundinum voru helstu málefni félagsins til umfjöllunar, meðal annars skýrsla stjórnar, ársreikningar og kosningar til stjórnar og varastjórnar.
Pétur H. Halldórsson endurkjörinn formaður
Pétur H. Halldórsson, sem lokið hafði sínu kjörtímabili sem formaður, gaf kost á sér til áframhaldandi starfa og var einróma endurkjörinn til tveggja ára. Einnig voru kosnir tveir meðstjórnendur; Jóhann Unnar Sigurðsson hlaut kjör í fyrstu umferð, en Arnar Heiðarsson var valinn í seinni umferð kosninga. Í varastjórn hlutu kjör þeir Kristján Sveinbjörnsson og Hafþór Ólason.
Aðrar samþykktir og verkefni félagsins
Ársreikningar félagsins voru kynntir og samþykktir án athugasemda, en engin tillaga lá fyrir um breytingar á félagsgjöldum eða samþykktum félagsins. Núverandi skoðunarmenn reikninga, Helgi Kolsöe og Lárus Andri Jónsson, voru endurkjörnir einróma.
Undir liðnum önnur mál vakti Hjörleifur Stefánsson, formaður SART, athygli fundarmanna á Mannvirkjagátt HMS og hvatti félagsmenn til að nýta sér upplýsingarnar sem þar má finna. Áður en fundurinn hófst hélt Borgar Erlendsson kynningu á nýju markaðsforriti, Kozmoz, sem ætlað er að auðvelda viðskiptatengsl og miðlun þjónustu á sviði löggiltra iðngreina í mannvirkjagerð.
Ný stjórn tekur til starfa
Stjórn FLR fyrir starfsárið 2024-2025 skipa nú Pétur H. Halldórsson, formaður, ásamt Jóhanni Unnari Sigurðssyni, Arnari Heiðarssyni, Bergrós B. Bjarnadóttur og Róberti Einari Jenssyni sem meðstjórnendum. Hafþór Ólason og Kristján Sveinbjörnsson gegna hlutverki varamanna.

Haustferð FLR

Félags löggiltra rafverktaka héldu nýverið í árlega haustferð sem að þessu sinni lá vestur á bóginn. 

Viðburðarík dagskrá

Fyrsta stopp ferðarinnar var í Hvalstöðina þar sem Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson tók á móti hópnum og kynnti fyrir þeim sögu og menningu sem tengist hvalveiðum á Íslandi. Að því loknu var haldið áfram að Hernámssafninu þar sem þátttakendur fengu innsýn í sögu Íslands á stríðsárunum og áhrif hernámsins á íslenskt samfélag.

Móttaka á Vimundarstöðum

Að dagskrá lokinni bauð Óskar Rafnsson í Rafkaup hópnum til sín í óðalssetur sitt að Vilmundarstöðum í Reykholtsdal þar sem gafst tækifæri til að njóta höfðinglegra veitinga, eiga gott samtal og efla tengsl meðal félagsmanna FLR. 

 PPétur H. Halldórsson formaður FLR og Þór Pálsson framkvæmdastjóri Rafmenntar

97. Stjórnarfundur SART: Megin áherslur og ný verkefni

Stjórn Samtaka rafverktaka (SART) kom saman á Hótel Selfossi þann 25. október þar sem fjöldi mála var á dagskrá, allt frá öryggismálum tengdum rafmagnstöflum til þáttöku í erlendu samstarfi evrópskra rafverktaka. Fundinum var stýrt af Hjörleifi Stefánssyni, og var Jóhann Ólafsson frá HMS gestur fundarins.

Áhersla lögð á öryggismál í rafiðnaði

”Stóra víramálið” hefur verið til umræðu meðal félagsmanna SART frá 2022, og hefur það krafist töluverðrar vinnu Fagnefndar SART og tíðra samskipta við HMS. Uppfærðar leiðbeiningar frá HMS voru kynntar í október, og er von á endanlegri útgáfu á næstu vikum, þegar leiðbeiningarnar liggja fyrir munu þær verða kynntar sérstaklega fyrir félagsmönnum.
Í átaksverkefni um eldri rafmagnstöflur greindi HMS frá því að ábendingar hafa borist um 600 rafmagnstöflurm sem taldar eru hættulegar, og ætlar HMS að senda eigendum viðkomandi fasteigna upplýsingar um nauðsynlegar ráðstafanir sem grípa þarf til.  SART mun senda félagsmönnum upplýsingar sem HMS hefur gefið út og fjalla um hættur sem geta stafað að eldri rafmagnstöflum.

Rafmagnsöryggisgáttin

Sart og Samorka hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu rafmagnsöryggisgáttarinna og leggja áherslu á að flýtt verði innleiðingu nýrrar rafmagnsöryggisgáttar sem fylgi nýjustu tækniþróun. Óskað hefur verið eftir skriflegu svari frá HMS um stöðu þessa verkefnis en óstaðfestar fréttir herma að áætlað sé að ný gátt verði tekin í notkun haustið 2025.

Öryggisskóli iðnaðarins
Sagt var frá undirbúning fyrir stofnun Öryggisskóla iðnaðarins þar sem lagt er upp með að efla öryggisvitund og menntun iðnaðarmanna með samstarfi Rafmenntar og Iðunnar.

Nýleg þátttaka á alþjóðlegum vettvangi
Hjörleifur Stefánsson kynnti þátttöku samtakanna á NEPU- og EuropeOn-fundum, þar sem fjallað var um nýjar orkulausnir og áhrif regluverks ESB á íslenskan iðnað. Með þessu samstarfi hyggjast SART sjá fyrir væntanlegar breytingar á regluverki í rafiðnaði og bregðast við þeim tímanlega.

SART í góðu samstarfi við Samtök iðnaðarins munu áfram fylgjast grannt með þróun þessara mála og leggja sitt af mörkum til að tryggja öryggi og gæði í íslenskum rafiðnaði.

Magnús Gíslason, formaður Félags rafverktaka á Suðurlandi sá um undirbúning fundarinns.

Valdimar Bragason leiddi fundarmenn um nýja miðbæinn  á Selfossi og sagði sögu húsanna sem fyrir augu bar 

 

Ráðstefna og aðalfundur EuropeOn haldin í Berlín í samvinnu við ZVEH

Ráðstefna EuropeOn, í samvinnu við þýsku samtök raf- og upplýsingatækniiðnaðarins ZVEH, fór fram dagana 17.-18. október 2024 í Berlín. Á ráðstefnunni komu saman lykilfulltrúar rafverktakageirans í Evrópu til að ræða framtíð rafiðnaðarins og sjálfbæra þróun í greininni.
Dagskráin hófst með hringborðsumræðum, en á eftir fylgdu áhugaverð erindi frá ýmsum fyrirlesurum. Meðal þeirra var Adalbert Neumann frá Busch-Jaeger Elektro GmbH, sem ræddi alþjóðlega strauma í raforkugeiranum. Dr. Torsten Hager frá Hager Electro GmbH fjallaði um mikilvægi orkustjórnunar fyrir sjálfbæra framtíð, og Alexander Grams frá ABB Stotz-Kontakt GmbH kynnti nýstárlega notkun sýndarveruleikagleraugna í raforkugeiranum.
Einnig voru áhugaverðar umræður um framtíðarlausnir með nýjum tólum og markaðstorgum. Þar á meðal voru erindi um nýtingu gagna og stafrænna vörupassa sem mikilvæg tæki í viðskiptum, með framlagi frá Paul Seifert, Prof. Thomas Knothe og Ludwig Klatzka.
Aðalfundur EuropeOn var svo haldinn 18. október þar sem fráfarandi formanni Martin Bailey frá ensku rafverktakasamtökunum ECA var þakkað fyrir störf síní þágu samtakanna. Í framhaldinu var Kimmo Hallamaa, fulltrúi frá finnsku rafverktakasamtökunum STUL, kosinn nýr formaður EuropeOn til næstu þriggja ára.
Fundurinn var vel heppnaður og styrkti tengslanet innan evrópska rafverktakageirans. Íslensku fulltrúarnir, Hjörleifur Stefánsson, formaður Sart, og Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Sart, sóttu fundinn fyrir hönd Samtaka rafverktaka

Emma Elholm Karlsson stjórnarmaður í EuropeOn, Martin Bailay fv. formaður EuropeOn, Julie Beaufils framkvæmdastjóri EuropeOn, Kristján D. Sigurbergsson framkvæmdastjóri Sart og Claudia Vera Grossocordone starfsmaður EuropeOn

 

Hjörleifur Stefánsson formaður Sart kynnir sér raflagnakerfi í sýndarveruleika

Vegleg gjöf til Raftækniskólans

Samtök rafverktaka (SART) eiga 75 ára afmæli í ár og að því tilefni gáfu þau Raftækniskólanum veglegar gjafir. Stjórn SART sýndi rafeindavirkjun sérstakan stuðning og gaf deildinni tíu Fluke mæla sem munu nýtast við kennslu á námsbrautinni. Einnig gáfu samtökin skólanum Profitest úttektarmæli fyrir raflagnir, þar að auki fylgdi mælinum allur nauðsynlegur aukabúnaður til að gera mælingar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Við afhendingu gjafarinnar 4. október sl. flutti Hjörleifur Stefánsson formaður Sart stutt erindi áður en Skólameistari og Aðstoðarskólameistari veittu gjöfunum viðtöku.  

Erindi Hjörleifs:
Þann 31. mars 1949 komu nokkrir rafvirkjameistarar sama og stofnuðu Landssamband rafvirkjameistara skammstafað LÍR, seinna var svo nafninu breytt í Landssamband íslenskra rafverktaka. Það var svo árið 2010 að félagsmenn LÍR ákváðu að taka upp nafnið Samtök rafverktaka í raf og tölvuiðnaði en örfáum árum seinna ver nafninu enn breytt og þjálla nafn valið sem stendur enn sem er Samtök rafverktaka,  skammstafað SART.
  Í SART eru 7 landshlutafélög löggiltra rafverktaka auk félags Rafeindatæknifyrirtækja sem starfar á landsvísu. Rúmlega 200 fyrirtæki rafverktaka eru innan SART og starfsmenn þeirra eru ca 80% af starfandi rafiðnaðarmönnum á Íslandi
Á þessum 75 árum sem liðin eru frá stofnun samtakanna hafa forystumenn þess unnið að hagsmunum iðngreinarinnar og mikilvægur hluti þess er að styðja við faglegt starf verkmenntaskólanna og að sjálfsögðu opna dyr sínar fyrir nemum sem þurfa að komast í vinnustaðanám.
Eitt stærsta hagsmunamál rafverktaka síðustu ár er að hafa aðgang að vel menntuðu rafiðnaðafólki. Má í því samhengi má nefna að niðurstöður greiningar sem Samtök iðnaðarins unnu fyrir SART dregur fram að félagsmenn SART áætla að þeir þurfi að ráða 800 nýja starfsmenn á næstu 5 árum til að mæta þörf markaðarins.
Undanfarin ár hefur fjöldi útskrifaðra sveina rétt svo haldið í við þann fjölda sem farið hefur á eftirlaun eða haldið á önnur mið, en nýsveinum hefur heldur fjölgað þetta árið vonandi heldur þeim áfram að fjölga því mikil og fjölbreytt atvinnutækifæri eru fyrir rafiðnaðarfólk framtíðarinnar.
Það er okkur sérstök ánægja að í tilefni 75 ára afmælis Samtaka rafverktaka að styðja við rafiðnaðardeild Tækniskólans með þeirri gjöf sem var samþykkt af stjórn að færa skólanum á þessum tímamótum, með von um að þessi tæki verði til að styðja enn betur við rafiðnaðarnám Tækniskólans.
Góðar stundir

 

VMA færð gjöf frá FRN og SART við útskrift nýsveina

Verkmenntaskólinn á Akrueyri, VMA útskrifaði 27 sveina í rafiðngreinum við hátíðlega athöfn í Hofi  föstudaginn 20. september sl.
Að þessu sinni útskrifuðust 23 rafvirkjar og 3 rafveituvirkjar.


Við athöfnina óskaði Aðalsteinn Þór Arnarson, formaður Félags löggiltra rafverktaka á Norðurlandi, FRN og stjórnarmaður í Samtökum rafverktaka, SART, nýsveinum til hamingju með áfangann og rifjaði upp þegar hann stóð í sömu sporum og þau gera nú. Þá afhenti Aðalsteinn,  Bergi Líndal Guðmundssyni viðurkenningu fyrir besta samanlagðan árangur í bóklegu og verklegu sveinsprófi.
Að útskriftinni lokinni steig Aðalsteinn aftur á stokk og kom í máli sínu inn á það að í ár eru Samtök rafverktaka 75 ára og VMA 40 ára. Í því tilefni afhenti Aðalsteinn skólanum gjöf frá SART og FRN. Um er að ræða 10. vandaða mæla af gerðinni Fluke 177 sem koma til með að vera notaðir við kennslu í rafiðngreinum gjöf.  Björn Hreinsson kennari við VMA tók við gjöfinni fyrir hönd VMA.

 

Aðalsteinn Þór Arnarson formaður FRN afhenti Bergi Líndal Guðmundssyni viðurkenningu fyrir besta samanlagðan árangur á bóklegu- og verklegu sveinsprófi.

 

 


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.