(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

75 ára afmæli Sart

Samtök rafverktaka héldu upp á 75 ára afmæli samtakanna í tengslum við aðalfundinn 8. mars sl. En stofnndagurinn var 31. mars árið 1949.

Hér eru myndir frá afmælishófinu sem haldið var að þessu tilefni



Horft um öxl:
Í ár eru 75 ár frá því að nokkrir rafvirkjameistarar komu saman í húsi Verslunarmannafélags Reykjavíkur við Vonarstræti í þeim tilgangi að stofna Landssamband rafvirkjameistara. Eftir að lög höfðu verið samþykkt var ákveðið að nafnið skyldi skammstafað L.Í.R. Árið 1967 var nafninu síðan breytt í Landssamband íslenskra rafverktaka.
Næsta dag var fundi fram haldið og þar var fyrsta stjórnin kjörin og var hún þannig skipuð: Jón Sveinsson formaður, Gissur Pálsson gjaldkeri og Vilberg Guðmundsson ritari, allir úr Reykjavík, Eyjólfur Þórarinsson frá Akureyri varaformaður og Jóhann K. Jóhannesson frá Siglufirði meðstjórnandi. Endurskoðendur voru kjörnir þeir Hjálmar Halldórsson, Hólmavík og Örnólfur Örnólfsson, Reykjavík.

Í upphafi má segja að LÍR hafi verið einskonar félag rafverktaka utan Reykjavíkur en Félag löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík hafði verið starfandi frá árinu 1927. Ástæðan fyrir stofnum þess félags var m.a. óhæfileg samkeppni sem skýrð var með þessum hætti: Um þessar mundir voru um 24 þúsund íbúar í Reykjavík eða að meðaltali 4.800 íbúar á hvern rafvirkjameistara. Meirihluti félagsmanna leit þá svo á að óþarft væri að fjölga rafvirkjameisturum í bænum og er fyrsta bréfið sem getið er um í fundargerð ritað rafmagnsstjóra af þessu tilefni. Segir þar á einum stað: „Samkeppnin er hér orðin óhæfileg, en það stafar af því að í bænum er ekki til nægileg vinna handa þessum 5 mönnum og þó vinnur einn þessara manna einn síns liðs.“

Árið 1955 gekk Félag rafvirkjameistara á Akureyri í sambandið og var þá ákveðið að opna skrifstofu í Reykjavík. Um 1970 hófst undirbúningur að stofnun rafverktakafélaga í öllum landshlutum og fljótlega gerðust þau öll aðilar að LÍR. Að samtökunum standa eftirtalin félög: Félag löggiltra rafverktaka, Félag rafverktaka á Vesturlandi, Félag löggiltra rafverktaka á Vestfjörðum, Félag löggiltra rafverktaka á Norðurlandi, Félag rafverktaka á Austurlandi, Félag rafverktaka á Suðurlandi, Rafverktakafélag Suðurnesja og Félag rafeindatæknifyrirtækja.

Árið 1963 eignuðust rafverktakar ásamt Vinnuveitenda sambandi Íslands, húseignina að Hólatorgi 2. Tengslin við VSÍ voru því náin á þeim tímum og stóð sambúðin allt fram til ársins 1975 er LÍR keypti þeirra hlut. Nýttu samtökin allt húsið fram til ársins 1986 en þá var Hólatorgið selt og flutt í húsnæði að Skipholti 29a. Árið 1987 var orlofshúsið Ásgarður í Grímsnesi tekið í notkun.
Í mars árið 1960 hóf LÍR útgáfu á litlu tímariti sem nefnt var Rafvirkjameistarinn og var það í upphafi fjórar síður. Stærst varð blaðið rúmlega þrjátíu síður en útgáfu þess var hætt undir lok áratugarins. Árið 1970 hófst síðan útgáfa fjölritaðs fréttabréfs, sem stóð allt fram til ársins 1993 en þá hófst útgáfa LÍR frétta sem stóð alveg fram til þess tíma að samtökin settu á stofn eigin heimasíðu og var þá blaðaútgáfu hætt.
Árið 1965 var undirritaður samningur við RSÍ um ákvæðisvinnutaxta. Fljótlega var skipuð ákvæðis vinnunefnd sem hefur staðið að baki reksturs Ákvæðis vinnustofu rafiðna frá stofnun hennar. LÍR VERÐUR SART OG VSÍ VERÐUR SA Þann 1. september 1999 var nafni Landssambands Íslenskra rafverktaka breytt í Samtök atvinnurekenda í raf og tölvuiðnaði, skammstafað SART. Markmiðið með breytingunum var að efla samstöðu fyrirtækja í raf og tölvuiðnaði og styrkja samtök þeirra. Jafn framt að opna fjölbreyttari fyrirtækjum leið inn í ný heildarsamtök atvinnulífsins. Þann 1. október sama ár tóku Samtök atvinnulífsins SA, til starfa og leystu af hólmi Vinnuveitendasamband Íslands.

Í maí 2002 fluttu samtökin aðsetur sitt úr Skipholti 29a í nýtt og glæsilegt hús Samtaka atvinnulífsins í Borgartúni 35. Með því gafst kjörið tækifæri til þess að styrkja rekstur skrifstofu SART og aðildarfélaganna og komast nær öðrum fulltrúum atvinnulífsins ásamt sérfræðingum á vinnumarkaði. Á aðalfundi SART þann 5. mars 2010 var nafni samtakanna breytt í SART Samtök rafverktaka.

Á fyrsta stjórnarfundi  LÍR árið 1949 var samþykkt að sækja um inngöngu  í Landssamband  iðnaðarmanna, viðræður sigldu í strand og var inntökubeiðnin afturkölluð. Svipað gerðist þegar Samtök iðnaðarins voru stofnuð, en þá voru inngönguskilyrðin þau að LÍR yrði lagt niður og þar með var aðild LÍR úr sögunni, í annað sinn.  Á haustdögum 2011 náðist loks samkomulag um aðild SART að SI sem fól í sér að fyrirtæki innan SART væru fullgildir aðilar að SI auk þess sem sjálfstæði SART var tryggt. Samkomulagið tók gildi þann 1. janúar 2012.

Innflutningshöft og skortur á efni til raflagna var einn helsti hvatinn að stofnun samtakanna. Sem dæmi um ástand og höft þeirra tíma má nefna að samþykkt var á aðalfundi 1961 að viðsjárvert væri að innflutnings yfirvöld neyddu menn til þess að flytja inn ljósaperur sem sundruðust framan í notendur. Í janúar 1962 var því ákveðið að sambandið leysti til sín heildsöluleyfi. Hafinn var innflutningur á ljósaperum og þar með hófst starfsemi Söluumboðs L.Í.R. sem stóð allt fram á tíunda áratuginn en þá var starfsemin lögð niður. Löggildingin, reglugerð um raforkuvirki, starfsleyfi rafverktaka og öryggismál hafa þó alla tíð verið málefni sem mest hafa verið rædd á fundum rafverktaka. Samtökin hafa alla tíð átt fulltrúa í ráðum og nefndum sem um þessi mál hafa fjallað auk fjölda annarra málaflokka. SART hefur frá árinu 1979 farið með umboð aðildarfélaganna í kjarasamningum bæði gagnvart Rafiðnaðarsambandi Íslands og innan Samtaka atvinnulífsins. SART á fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðsins Birtu. Með nýjum lögum um rafmagnsöryggi sem tóku gildi árið 1997 var gerð krafa um að rafverktakar kæmu sér upp öryggisstjórnun. LÍR og eftirmenntun rafiðna létu því árið 1998 gera öryggisstjórnunarkerfið LÍRös sem m.a. innihélt verkskráningu og var kerfið sérsniðið að þörfum rafverktaka. Allt frá þeim tíma hafa rafverktakar haldið uppi gæðakerfi og síðustu ár verið þátttakendur í miðlægri rafmagnsöryggisgátt Mannvirkjastofnunar. Sem dæmi um verkefni á sviði öryggismála hafa Samtök rafverktaka, Samtök iðnaðarins, Rafiðnaðarsamband Íslands og Mannvirkjastofnun tekið höndum saman og afhent hátt í 1500 öryggislása til að draga úr hættu á slysum og óhöppum af völdum óæskilegrar eða óvæntrar spennusetningar rafbúnaðar. Með því að afhenda öryggislásana er verið að stíga stórt skref til þess að draga úr hættu á slysum. Með notkun öryggislása getur starfsmaður tryggt að hann sé að vinna við búnað sem ekki er undir spennu. En um leið er verið að vekja athygli starfsmanna á því að þeir bera ekki einungis ábyrgð á eigin öryggi heldur þurfa þeir jafnframt að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi annarra sem gætu verið í hættu vegna þeirra vinnu eða bilunar í rafbúnaði.

Árið 1974 var gert samkomulag við RSÍ um stofnun eftirmenntunar. Samþykkt þessi var mikið gæfuspor og samstarf SART og RSÍ á þessu sviði er til fyrirmyndar. Samtökin hafa fram til þessa skipað stjórnir Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og Rafiðnaðarskólans að jöfnu, en þessar stofnanir hafa nú verið sameinaðar undir heitinu Rafmennt  fræðslusetur rafiðnaðarins.  Sveinsprófsnefndir í rafiðnaði eru skipaðar fulltrúum samtakanna. Á þann hátt getur atvinnulífið lagt mat á kennslu í skólunum, veitt þeim aðhald og stuðlað að því að markaðurinn fái alltaf sem hæfasta starfskrafta.

SART ásamt RSÍ hafa um árabil veitt viðurkenningar fyrir góðan árangur á sveinsprófum og þá hafa samtökin á seinni árum látið grunn og fagnámið sig meira varða. Um tíma var eitt af verkefnum sem sem samtökin settu í gang það að allir nýnemar í rafiðnaði fengu spjaldtölvur að gjöf við upphaf náms. Spjaldtölvurnar veittu nemum aðgang að námsefni á „Rafbók“.is, en samtök rafiðnaðarmanna hafa um langt skeið unnið að gerð námsefnis á rafrænu formi sem nemendur geta notað gjaldfrjálst í gegnum allt námið. Nýlega var þessu fyrirkomulagi breytt og í dag fá nýnemar vandaðan vinnufatnað og hefur það mælst afar vel fyrir.

SART hefur átt farsæl samskipti við önnur samtök rafverktaka á Norðurlöndum. NEPU fundir eru fundir framkvæmdastjóra og formanna norrænu samtakanna og hafa þeir verið haldnir á Íslandi á fimm ára fresti, allt frá árinu 1964, næsti NEPU fundur verður á Íslandi árið 2027. Þá gekk Sart nýlega í EuropeOn sem eru evrópsk samtök rafverktaka og eru miklar vonir bundnar við það samstarf.

Fyrirtæki innan Sart eru rúmlega 200 og innan raða þeirra eru fyrirtæki úr öllum geirum rafiðnaðar, allt frá einyrkjum upp í stærstu rafiðnaðarfyrirtæki landsins. Í nýlegri hagtölugreiningu sem vistuð er á innri vef Sart og unnin var af Samtökum iðnaðarins kom fram að rúmlega 80% af starfsmönnum fyrirtækja sem skilgreina starfsemi sína með ÍSAT númerinu 43.21.0 eru starfandi hjá fyrirtækjum innan Sart.  Jafnframt kom fram í annarri greiningu um Hæfniþörf í rafiðnaði sem einnig var unnin af SI, að fyrirtækin telja sig þurfa að fjölga rafvirkjum um að minnsta kosti 800 á næstu 5 árum sem er rúmlega 30% fjölgun starfandi rafvirkja á markaðnum.

Á síðasta ári gerði Sart samstarfssamning við fyrirtækið Veistu hvar um smíði á verkfæra appi sem aðildarfyrirtæki Sart hafa gjaldfrjálsan aðgang að, þá hafa aðildarfyrirtæki einnig gjaldfrjálsan aðgang að fagtengdum stöðlum samkvæmt sérstökum samningi milli Staðlaráðs og Sart. Loks má nefna að árið 2023 hóf Sart að gefa öllum nýútskrifuðum Rafvirkjameisturum gjafabréf upp á ársaðild að Sart. Hefur það mælst vel fyrir og er það sérstakt ánægjuefni að taka á móti nýjum fyrirtækjum í stækkandi hóp aðildarfyrirtækja Sart.

Heimildir 70 ára afmælisrit Sart og Ásbjörn Jóhannesson.

 

Kristján D. Sigurbergsson

Aðalfundur Sart

Aðalfundur Sart var haldinn föstudaginn 8. mars 

Á fundinum voru auk hefðbundinna aðalfundarstarfa kynnt greining á hæfniþörf í rafiðnaði ásamt hagtölugreiningu á rekstri fyrirtækja sem skráð eru +i fyrirtækjaskrá undir ÍSAT númerinu 43.21.0 Raflagnir.

Ítarleg greining var á fyrirtækjum innan Sart en einnig var stillt upp samanburði á afkomu fyrirtækja innan og utan Sart. Greiningin er aðgengileg á innrivef Sart.

Þá flutti Óskar Frank Guðmundsson, sérfræðingur í rafmagnsöryggi hjá HMS erindi sem hann kallaði Tölfræði yfir þjónustubeiðnir og lokatilkynningar. Að aðalfundi loknum buðu birgjarnir; Joohan Rönning, Reykjafell og Smith & Norland fundarmönnum í hádegisverð á Grand Hótel.

Ný greining á hæfniþörf í rafiðnaði

Samtök iðnaðarins hafa unnið greiningu á hæfniþörf í rafiðnaði.

Þar kemu fram að forsvarsmenn fyrirtækja í rafiðnaði áætla að það þurfi 940 nýja starfsmenn til að mæta vexti greinarinnar til næstu 5 ára en af þeim fjölda þarf 220 til að koma í stað þeirra sem munu láta af störfum vegn aldurs.

Alls telja fyrirtækin sig þurfa að ráða 800 nýja rafvirkja til starfa á árunum 2024-2028.

 

Sjá nánar frétt á vef SI  

í Viðskiptablaðinu er einnig fjallað um greininguna

 

Fundarboð - Aðalfundur Sart

Fundarboð - takið daginn frá!

 

Aðalfundur Sart verður haldinn föstudaginn 8. mars kl. 08:30 á Grand Hótel Reykjavík

Mikilvægt að fylgja fyrirmælum HS Veitna

Í aðstæðum eins og nú hafa raungerst á Reykjanesi við það að heitavatnsæðin frá Svartsengi rofnaði er mikilvægt að huga að rafmagnsöryggi heimila og fyrirtækja.
Viðbúið er að húseigendur freistist til að tengja fleiri rafmagnsofna en rafkerfið ræður við og þá kann að vera stutt í útslátt í rafmagnstöflum heimila eða jafnvel að dreifikerfi veitufyrirtækja slái út. Hafa ber í huga að við þessar aðstæður þarf að takmarka eftir því sem framast er unnt, samtímanotkun orkufrekra heimilistækja.  
Mikilvægt er að húseigendur kynni sér fyrirmæli HS veitna sem hafa gefið út ítarlegar leiðbeiningar til húseigenda um rafmagnsnotkun ef heitt vatn dettur út og notast á við rafmagn til kyndingar. Þar er lögð áhersla á að hver íbúð nota að hámarki 2500W (2,5kW) til húshitunar
Þá hefur HMS einnig sett inn á vef sinn hvatningu til húseigenda um að gæta fyllsta öryggis í umgengni við rafmagnsofna.

Stjórn Félags rafverktaka á Austurlandi endurkjörin

Aðalfundur Félags rafverktaka á Austurlandi, FRA, var haldinn föstudaginn 19. janúar sl. Á fundinum var stjórn félagsins endurkjörin en hana skipa Hrafnkell Guðjónsson formaður, Helgi Ragnarsson ritari, Ómar Yngvason gjaldkeri og Þórarinn Hrafnkelsson varamaður.

Undir liðnum önnur mál kynnti Hjörleifur Stefánssson, formaður SART, fyrir félagsmönnum stöðuna í kjarasamningsviðræðum SA við forystu Rafiðnaðarsambandsins, þar að auki kynnti Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART, verkfæra appið Veistu hvar sem öll aðildarfyrirtæki SART hafa gjaldfrjálsan aðgang að.

Að fundi loknum flutti Óskar Frank Guðmundsson fundarmönnum fróðlegt erindi þar sem hann kynnti áhugaverða tölfræði um fjölda þjónustubeiðna og lokatilkynninga sem berast til HMS auk þess sem hann ræddi um algengar athugasemdir skoðunarstofa og mælingar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla.

Á myndinni hér fyrir ofan eru Ómar Yngvason, Kristján D. Sigurbergsson, Hjörleifur Stefánsson, Helgi Ragnarsson og Hrafnkell Guðjónsson.

 

 

Hjörleifur Stefánsson formaður SART

 

Óskar Frank Guðmundsson, sérfræðingur á Rafmagnsöryggissviði HMS

 


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.