(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

FLR leggur áherslu á fagmennsku og réttindi rafverktaka

Aðalfundur Félags löggiltra rafverktaka (FLR) fór fram 6. nóvember 2024 í Húsi atvinnulífsins. Fundurinn markaði lok viðburðaríks starfsárs þar sem áhersla var lögð á réttindi rafverktaka, menntun, öryggi og faglegt sjálfstæði.
Fjölbreytt verkefni og virkt félagsstarf
Á starfsárinu fundaði stjórn FLR átta sinnum og fjölmörg málefni voru tekin til umræðu, þar á meðal staða og réttindi rafvirkjameistara, öryggismál og samskipti við bæði Veitur og HMS. Í skýrslu formanns kom fram að félagsmenn hafi verið ötulir í að koma ábendingum á framfæri vegna réttindalausrar starfsemi og að nauðsynlegt sé að vekja áframhaldandi athygli á því máli.
Miklar umræður voru einnig um nauðsyn teikniréttinda rafvirkjameistara, aðgengi að útboðsgögnum og verklagsreglur um uppsetningu rafmagnsmæla og spennusetningar. FLR krefst skýrari ferla og samræmingar sem tryggja fagmennsku og öryggi í framkvæmdum.
Þátttaka í stefnumótun og faglegum umræðum
Félagið tók virkan þátt í stefnumótun Sart fyrir næstu fimm ár og var m.a. rætt um menntun, ábyrgð og stöðu iðngreina. Fundir voru haldnir í samstarfi við Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um framtíð meistaranáms í rafvirkjun, og kallað eftir því að meistarar verði virkir þátttakendur í þeirri þróun.
Haldinn var fræðslufundur um framleiðslu og geymslu birtuorku og nýsköpun á því sviði, auk þess sem fundað var með Veitum og HMS vegna breytinga á verkferlum og samskiptum.
Kosningar í stjórn og staðfesting reikninga
Jóhann Unnar Sigurðsson var endurkjörinn formaður FLR til næstu tveggja ára. Auk þess sem kosið var um meðstjórnendur og varamenn.
Stjórn félagsins 2025-2026 skipa:
• Formaður: Jóhann Unnar Sigurðsson
• Meðstjórnendur: Arnar Heiðarsson, Hafþór Ólason, Kristján Sveinbjörnsson, Róbert Einar Jensson
• Varamenn: Snorri Sturluson og Rúnar Kristjánsson
Helgi Kolsöe og Lárus Andri Jónsson voru endurkjörnir sem skoðunarmenn reikninga. Ársreikningur félagsins var samþykktur samhljóða og engar breytingar lagðar til á félagsgjöldum eða samþykktum.
Áhersla á vandaða undirbúning og endurskoðun kerfa
Miklar áhyggjur voru lýstar af slökum árangri nemenda í sveinsprófum og var skorað á meistarana að leggja aukna áherslu á undirbúning nema. Árangur nema á sveinsprófi sýnir svart á hvítu mikilvægi sveinsprófa sem tæki atvinnulífsins til að tryggja rétta hæfni sveina. Þá var rætt um rekstrarumhverfi iðnfyrirtækja og álag sem veikindakostnaður veldur litlum fyrirtækjum. Félagið hvetur til umræðu um breytingar á lögum og reglum í ljósi þróunar á vinnumarkaði.

 

Aron Bjarnason frá Filmís kynnti Rafræn vinnustaðaskírteini frá Hverertu.is sem unnin voru að frumkvæði Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins

Aðalfundur Rafverktakafélags Suðurnesja

Aðalfundur Rafverktakafélags Suðurnesja fór fram á Hótel Keflavík 6. nóvember 2025 þar sem farið var yfir stöðu félagsins, kosið í embætti og rætt um málefni greinarinnar. Fundurinn fór löglega fram og var vel sóttur.

Formaður félagsins, Hjörleifur Stefánsson, flutti skýrslu stjórnar þar sem fram kom að félagsstarfið hafi að mestu farið fram í gegnum þátttöku í Sart, en formaður RS situr í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna og ritari er varamaður í stjórn. RS á einnig í góðu samstarfi við Samtök iðnaðarins, meðal annars um stefnumótun og vöktun á atvinnuþróun. 
Atvinnuástand rafverktaka á Suðurnesjum er gott þrátt fyrir vissar blikur og áframhaldandi skort á faglærðu starfsfólki. Á liðnu ári útskrifuðust 18 einstaklingar með sveinspróf í rafvirkjun, þar af einn í rafveituvirkjun.

Ný verkefni og sameiginlegir viðburðir:
Félagið tók þátt í fjölbreyttum viðburðum á árinu. Meðal annars var haldið golfmót rafvirkja í Sandgerði með góðri þátttöku. Nýtt verklag var tekið upp þar sem eitt fyrirtæki sér um mótshald hverju sinni, og mun SI Raflagnir ehf. annast mótið árið 2026.
RS stóð einnig að starfsgreinakynningu fyrir nemendur í íþróttahúsinu við Sunnubraut, í samstarfi við Rafmennt. Þá fór fyrsti haustfundur stjórnar Sart fram í Keflavík, og í tengslum við hann var skipulagður stefnumótunarfundur með góðri þátttöku.
Kosningar og heiðursviðurkenningar:
Kosið var um stöðu ritara til þriggja ára, og hlaut Guðmundur Ingólfsson einróma stuðning. Núverandi stjórn félagsins skipa:

Formaður: Hjörleifur Stefánsson
Ritari: Guðmundur Ingólfsson
Gjaldkeri: Björn Kristinsson
Varamaður: Ólafur Róbertsson

Arnbjörn Óskarsson var gerður að heiðursfélaga RS og minnst var Ingvars Hallgrímssonar, sem lést á árinu.
Umræður um vottanir og skráningu félags:
Á fundinum var rætt um mikilvægi heilbrigðisvottorða fyrir fyrirtæki, sem nú er aftur komið á dagskrá innan stjórnar SI og SA. Formaður RS leggur mikla áherslu á að nýta nútímatækni til að einfalda ferlið.

Einnig kom fram gagnrýni á umhverfisvottanir eins og Svans og Breeam, sem geta valdið miklu auknu vinnuálagi við gagnaöflun – án þess að endilega skili sér í betri gæðum. Þó sé hægt að fá hagstæðari fjármögnun með slíkar vottanir.

Skráning félagsins í fyrirtækjaskrá sem Rafverktakafélag Suðurnesja var formlega samþykkt og ákveðið að bæði ritari og gjaldkeri verði prókúruhafar.

Traustur stuðningur og samstarf:
Fundinum lauk með kvöldverði á vegum Reykjafells, sem hlaut sérstakar þakkir frá formanni fyrir stuðning við félagið og góða þjónustu við Suðurnesjamenn. Fram kom að höfuðstöðvar Reykjafells flytja að Korputorgi í janúar 2026, þar sem starfsumhverfið mun taka stórt stökk fram á við.

 Arnbjörn Óskarsson var gerður að Heiðursfélaga Rafverktakafélags Suðurnesja, hér tekur hann við viðurkenningu frá Hjörleifi Stefánssyni formanni RS 

Orkuvirki fagnar 50 ára afmæli

Orkuvirki sem er aðildarfyrirtæki Samtaka rafverktaka og Samtaka iðnaðarins, fagnar á þessu ári 50 ára starfsafmæli. Af því tilefni var blásið til afmælisveislu í húsnæði fyrirtækisins að Tunguhálsi 3 í Reykjavík. Þar komu saman starfsfólk, birgjar og viðskiptavinir og áttu ánægjulega samverustund. Ríkulega var fagnað tímamótunum og gleði ríkti meðal gesta.

Afmælisárinu 2025 hefur verið fagnað með þremur sérstökum viðburðum. Fyrst var efnt til tónleika með tónlistarmanninum Mugison í Salnum í Kópavogi, síðan var haldið afmælisgolfmót á Garðavelli á Akranesi og loks afmælishóf í höfuðstöðvum Orkuvirkis í Reykjavík.

Viðburðirnir endurspegla þann góða anda sem einkennir starfsemi fyrirtækisins og voru vel sóttir af samstarfsaðilum og viðskiptavinum Orkuvirkis.
Orkuvirki er eitt af elstu verktakafyrirtækjum landsins og hefur frá upphafi verið leiðandi í þróun og uppbyggingu á sviði orkuiðnaðar og veitukerfa. Fyrirtækið þjónustar meðal annars stóriðju, veitufyrirtæki og aðra stórnotendur og hefur áratuga reynslu af tæknilegum lausnum á þessu sviði.

Með sterkri fagþekkingu og stöðugri þróun hefur Orkuvirki átt stóran þátt í mótun innviða á Íslandi.
Starfsemi Orkuvirkis er gott dæmi um mikilvægi öflugra fyrirtækja í verktaka- og tæknigeiranum fyrir innviði samfélagsins. Samtök rafverktaka óskar eigendum og starfsfólki Orkuvirkis til hamingju með þessi tímamót og minna á mikilvægi þess að skapa traust og hagkvæmt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki sem leggja sitt af mörkum til orkuiðnaðarins og byggðarþróunar á Íslandi.

Snjallir innviðir í brennidepli á haustráðstefnu Rafal

Haust ráðstefna Rafal fór fram þann 22. október síðastliðinn á Hringhellu 9 þar sem framtíð stafræna innviða var í aðalhlutverki. Fjölbreytt dagskrá var í boði fyrir gesti og flutt voru mjög áhugaverð erindi. Meðal gesta var Jóhann Páll óhannsson umhverfis-, orku og loftslagsráðherra sem kom víða við í ávarpi sínu, vakti ráðstefnan góðar undirtektir meðal fagfólks í rafiðnaði..

Lifandi sófaspjall um framtíð innviðanna

Ráðstefnunni lauk með lifandi sófaspjalli þar sem rætt var um þróun snjallra innviða og hvernig stafræn tækni getur eflt orkugeirann. Umræðurnar leiddi Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, og voru viðmælendur hans:

• Niemi Tiia, þjónustustjóri hjá Pori Energia í Finnlandi

 Valentin Keller, tæknilausnasérfræðingur hjá Akenza í Sviss

• Nína Lea Z. Jónsdóttir, sérfræðingur í stafrænum kerfum hjá Landsneti

• Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá HS Orku

Viðmælendur deildu innsýn í þau tækifæri og áskoranir sem felast í snjöllum lausnum, gagnadrifinni stjórnun og sjálfvirknivæðingu innviða, sem og hvernig alþjóðleg þróun hefur áhrif á íslenskan orku- og rafiðnað.

Mikilvægt að efla samvinnu og þekkingu

Samtök rafverktaka fagna því framtaki sem Rafal sýndi með skipulagningu ráðstefnunnar. Slíkir viðburðir gegna lykilhlutverki í að miðla þekkingu, tengja saman aðila úr ólíkum greinum og styðja við nýsköpun og tækniframfarir í þágu íslensks iðnaðar.

Rafal – öflugur aðili að nýsköpun og innviðauppbyggingu

Rafal er aðildarfyrirtæki að Samtökum rafverktaka (SART) og Samtökum iðnaðarins (SI), og hefur um árabil verið leiðandi í þróun og uppbyggingu raforkuinnviða á Íslandi. Fyrirtækið hefur yfir 40 ára reynslu í faginu og sérhæfir sig í hátæknilausnum fyrir orkuiðnaðinn, sveitarfélög og stóriðju. Með öflugri tæknideild og eigin framleiðslu tryggir Rafal lausnir sem mæta ströngustu kröfum um öryggi, gæði og sjálfbærni.

Sem öflugt teymi sérfræðinga vinnur Rafal markvisst að því að þróa snjalla, örugga og hagkvæma innviði sem styðja við sjálfbæra framtíð. Með aðild að SI og SART er Rafal hluti af víðtæku neti fyrirtækja sem vinna að því að efla íslenskan iðnað, bæta rekstrarskilyrði og stuðla að tækniframförum í samfélaginu.

Auglýst eftir umsóknum um styrki vegna vinnustaðanáms nema

Fyrirtæki og stofnanir geta nú sótt um styrki til að taka á móti nemum í vinnustaðanám á tímabilinu 1. nóvember 2024 til 31. október 2025. Umsóknarfrestur er til 17. nóvember 2025 kl. 15:00.

Vinnustaðanámsstyrkir eru veittir fyrirtækjum og stofnunum sem taka á móti nemendum í starfsnámi sem hluti af námi og fer fram samkvæmt staðfestum vinnustaðanámssamningi í rafrænni ferilbók nemandans.

Skilyrði og uppfærðar úthlutunarreglur

Til að styrkur fáist þarf vinnustaðanámssamningur að hafa verið stofnaður í rafrænni ferilbók fyrir umsókn. Úthlutunarreglur sjóðsins voru uppfærðar þann 25. september 2025 og mikilvægt er að umsækjendur kynni sér þær áður en umsókn er send inn.

Mikilvægt framlag atvinnulífsins

Markmið vinnustaðanámssjóðs er að hvetja atvinnulífið til þátttöku í starfsnámi nemenda og stuðla þannig að því að þeir geti lokið tilskildu vinnustaðanámi. Með þátttöku í slíku námi veita fyrirtæki og stofnanir mikilvægt framlag til menntunar framtíðarstarfsfólks.

 Samtök rafverktaka hvetja aðildarfyrirtæki sín til að nýta sér þessa styrki og taka virkan þátt í að efla starfsnám og tryggja aðgengi nemenda að fjölbreyttu og raunhæfu vinnustaðanámi.

 

   

Stefnumótun Sart

Stefnumótunardagur Sart var haldinn föstudaginn 17. október sl. á Hótel Keflavík. Vinnunni stjórnaði Arndís Ósk Jónsdóttir, ráðgjafi hjá Change Incorporated.

Markmið stefnumótunarinnar var meðal annars að skilgreina áherslur og verkefni sem vinna skal að fram til ársins 2030. Þegar búið verður að vinna úr niðurstöðum fundarins verða þær rækilega kynntar fyrri félagsfólki Sart.

Þátt tóku rúmlega 30 félagsmenn frá öllum aðildarfélögum Sart en Rafverktakafélag Suðurnesja sá um undirbúning fundarinns sem tókst í alla staði vel.

 


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.