(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Meistaradeildin skorar á stjórnendur verknámsskóla

Meistaradeild Samtaka iðnaðarins, MSI, skorar á skólastjórnendur verknámsskóla að veita þeim nemendum forgang í iðnnám, sér í lagi við innritun í kvöldskóla, sem hafa lokið hluta starfsnáms og/eða starfað í iðngrein sæki þeir um að hefja eða ljúka námi í viðkomandi iðn. Þetta kemur fram í bréfi sem MSI hefur sent skólastjórnendum verknámsskóla. Það sama eigi við um þá aðila sem farið hafa í gegnum raunfærnimat og sækja um skólavist til að ljúka formlegu námi. Væri þessi að gerð til þess fallin að fjölga iðnmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði og mæta brýnni þörf iðnfyrirtækja.

Í bréfinu segir að í „Skýrslu starfshóps um innritun í starfsnám á haustönn 2022“, komi fram að þeim sem hafnað hafi verið um skólavist í starfsgreinum séu flestir eldri en 19 ára. Í húsasmíði og grunnnámi bygginga- og tæknigreina sé hlutfall 30 ára og eldri 37%. Á sama tíma sé mikil eftirspurn á vinnumarkaði eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Að mati stjórnar MSI sé hér um skýra skekkju að ræða sem nauðsynlegt sé að bregðast við sem fyrst.

Endurskoða þurfi aðferðafræði við úthlutun á skólavist
Þá kemur fram í bréfinu að við innritun í kvöldskóla sé algengasta reglan sú að „fyrstur kemur fyrstur fær“ sem hafi í raun þau áhrif að ekki sé forgangsraðað í námið í þágu þeirra sem séu að reyna að ljúka námi til starfsréttinda eða séu nú þegar starfandi án réttinda í viðkomandi iðn og vilji öðlast viðeigandi réttindi. Þessa aðferðarfræði við úthlutun á skólavist þurfi að mati stjórnar MSI að endurskoða.

Jafnframt segir í bréfinu að þar sem kvöldskólar eða dreifinám séu í boði hafi það verið aðgengilegasta skólaleiðin fyrir þá einstaklinga sem séu komnir með fjölskyldu og séu að reyna að ná sér í réttindi í faginu sem þeir séu starfandi við. Einstaklingar sem hafi farið í raunfærnimat þurfi jafnframt raunhæfar leiðir til að ljúka námi í samræmi við niðurstöður raunfærnimatsins. Breytt forgangsröðun gæti komið fjölmörgum einstaklingum hratt og örugglega út á vinnumarkaðinn með full réttindi.

Undir bréfið skrifa Jón Sigurðsson, formaður MSI, og Sævar Jónsson, varaformaður MSI. 

Fulltrúi SART tók þátt í vinnustofu NOREK

Fulltrúar aðildarfélaga Rafstaðlaráðs tóku þátt í vinnustofu norrænna rafstaðlastofnana, NOREK, sem haldin var í byrjun júní í Kaupmannahöfn undir yfirskriftinni „Young professionals“. Markmið vinnustofunnar var að kynna staðlavinnu fyrir ungum sérfræðingum, undir 36 ára að aldri, sem hafa áhuga á eða hagsmuni af stöðlun og samræmismati eða sviðum, s.s. öryggi, áreiðanleika, nýsköpun og þróun, auk þess að vera áhugasöm um að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Fulltrúar frá Íslandi á vinnustofunni voru Bergrós Björk Bjarnadóttir, Guðmundur Valsson, Andri Viðar Kristmannsson og Sólon Ívar Símonarson. Auk þess voru Snædís Danielsdóttir og Sigríður Jónsdóttir sem báðar stunda nám í tækniháskólanum DTU.

Bergrós Björk Bjarnadóttir var fulltrúi Samtaka rafverktaka, SART, í vinnustofunni en hún er löggiltur rafverktaki og rekur fyrirtækið Neisti rafverktakar ásamt því að vera varamaður í stjórn Félags löggiltra rafverktaka, FLR. Bergrós segir að um hafi verið að ræða vinnustofu fyrir unga fagmenn í rafmagnsgreinum. „Þarna komum við saman a.m.k. 50 einstaklingar til þess að finna nýjar lausnir til þess að tækla alheimsmarkmið SDG 7 en á hverju ári er nýtt mál tekið til skoðunar. Í þetta skipti áttum við að vinna í hópum við að búa til staðal sem gæti tryggt fólki sjálfbæran og áreiðanlegan orkugjafa um allan heim. Margar tillögur um staðla komu upp á yfirborðið en það sem stóð upp úr að mati “dómnefndar” var hugmynd um að hafa rafhlöður í heimahúsum. Tillagan var þess efnis að reiknuð yrði notkun fyrir hvert heimili og stærð rafhlaðna eftir því, síðan myndi álagið deilast og jafnast þar sem hlaðið yrði inn á rafgeymana en ekki alla í einu.“

Hún segir að meginmarkmið vinnustofunnar sé tað kynna ungum fagmönnum hvernig rafstaðlaráð virkar og vinna upp áhuga fólks til að koma inn í nefndir sem og að kynnast jafningjum á Norðurlöndunum. „Það sem kom mér mest á óvart var að þrátt fyrir að staðlar séu vissulega nauðsynlegir til að allt virki og öryggið sé í fyrirrúmi þá eru staðlar á borð við IEC og ISO helst til þess að gæta hagsmuna heildsala og fyrirtækja í Evrópu sem og einstakra landa að gæta sinna hagsmuna.“

 

Á myndinni eru Sólon Ívar Símonarson frá RARIK, Andri Viðar Kristmannsson frá RARIK,  Snædís Daníelsdóttir frá DTU, Sigríður Jónsdóttir frá DTU, Bergrós Björk Bjarnadóttir frá Neisti rafverktakar og Guðmundur Valsson frá Staðlaráði.

Félagsfundur SART

Félagsfundur SART var haldinn í Húsi atvinnulífsins í dag miðvikudaginn 28. júní
Á fundinum voru liðlega 30 manns auk þess sem honum var streymt í beinni útsendingu.

Þór Pálsson kynnti nýja námsleið fyrir ófaglærða starfsmenn löggiltra rafverktaka sem verður í boði frá og með haustinu 2023.
Lögð er áhersla á að námið höfði til aðila sem eru eldri en 25 ára og hafa einhverra hluta vegna ekki lokið formlegu námi til sveinsprófs.
Námið verður verkefnamiðað og því verður stillt þannig upp að allir eiga að geta lokið námi á þeim tíma sem hentar hverjum og einum.

Einnig var farið yfir mál sem snýr að mismunandi áherslum skoðunarstofa við úttektir á raflögnum.
Fyrir um það bil ári fór að bera á því að mikill munur var á áherslum skoðunarstofa við úttektir og athugasemdir voru gerðar við sverleika töflutauga. Á fundinum voru nefnd dæmi um fleiri atriði sem skoðunarstofur eru að dæma á ólíkann hátt.
Framkvæmdastjórn og Fagnefnd SART hafa átt nokkra fundi með rafmagnsöryggissviði HMS vegna þessa máls en ekki er komin niðurstaða í málið. Vonir standa til þess að það gerist á næstu dögum þannig að hægt verði að senda út leiðbeiningar um breytt verklag út á markaðinn sem bíður óþreyjufullur eftir frekari upplýsingum.

HÉR er hlekkur á upptöku af fundinum

 

Ásbjörn Jóhannesson, fyrrverandi framkvæmdastjóri SART ásamt Kristjáni D. Sigurbergssyni, framkvæmdastjóra SART

 

Gleðistund í boði Öryggismiðstöðvarinnar

Öryggismiðstöðin bauð rafverktökum innan SART til Gleðistundar fimmtudaginn 8 júní
Liðlega 40 löggiltir rafverktakar skráðu sig á viðburðinn þar sem boðið var upp á áhugaverðar kynningar,létt spjall og góðar veitingar.
Viðburðurinn tókst í alla staði mjög vel og þakka félagsfólk SART fyrir sig. 

 

Elfar Harðarson, rafverktaki, Auður Lilja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Öryggismiðstöðinni, Hafþór Ólason, rafverktaki 

Útskrift meistaranema frá RAFMENNT laugardaginn 20. maí

15 meistaranemar þar af 12 rafvikjameistarar og 3 rafveituvirkjameistarar voru útskrifaðir við hátíðlega athöfn frá RAFMENNT en þetta eru fyrstu nemendurnir sem útskrifast með meistararéttindi frá RAFMENNT eftir að skólinn hlaut viðurkenningu stjórnvalda sem framhaldsskóli.

Við athöfnina héldu Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, og Hjörleifur Stefánsson, formaður Samtaka rafverktaka, ávörp.

Í ávörpunum kom meðal annars fram að framtíð hagvaxtar á Íslandi byggi á iðn- og tæknimenntuðu fólki og fyrir utan hefðbundin störf rafiðnaðarfólks í mannvirkjagreinum þá séu mikla áskoranir framundan í loftslagsmálum. Þar sé efst á baugi orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi auk rafvæðingu hafna þar sem rafiðnaðnaðarfólk komi til með að hafa mikla aðkomu að því að leysa verkefni því tengdu. Þá kom fram að mikilvægt væri að meistarar væru þátttakendur í að efla starfsgreinina með því að taka nema til sín.

Að ávörpunum loknum afhenti Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar, meisturunum prófskírteini auk þess sem formaður Samtaka rafverktaka afhenti öllum meisturunum gjöf frá samtökunum.

Við útskriftina var greint frá því að þar sem færri komast að en vilja í kvöldskóla Tækniskólann væri RAFMENNT að fara af stað með námsmöguleika sem sniðinn er að þeim sem starfandi eru á vinnumarkaðinum en hafa ekki lokið formlegu námi.
 
 Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI
 
 Hjörleifur Stefánsson, formaður SART og stjórnarformaður RAFMENNT
 Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ, Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi fromaður RSÍ og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Rafmennt festir kaup á nýjum kennslubúnaði

Nýlega fest RAFMENNT kaup á varmadælum og tengdum kennslubúnaði frá Rafstjórn ehf
Fyrirtækið Rafstjórn ehf sem er eitt af aðildarfyrirtækjum SART hefur verið eitt af leiðandi fyrirtækjum landsins á þessu sviði til marga ára með sérhæfða þjónustu og innflutning á viðurkenndum vörumerkjum.

Með nýjum kennslubúnaði fyrir varmadælur fá þátttakendur á námskeiði um Varmadælur og kælitækni að læra allt sem kemur að uppsetningu á vélunum ásamt virkni þeirra og meðhöndlun á kælimiðli gagnvart umhverfinu.
Myndin hér að ofan var tekin þegar Erling Guðmundsson framkvæmdastjóri Rafstjórn ehf afhenti Þór Pálssynihjá RAFMENNT  kennslubúnaðinn.


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.