Windows 10 er ekki hætt – en öryggið er veikara


Grein eftir Hjört Árnason, formann Félags rafeindatæknifyrirtækja
Frá og með 14. október 2025 hefur Microsoft formlega hætt að styðja Windows 10 stýrikerfið. Þetta þýðir að öryggis- og hugbúnaðaruppfærslum hefur verið hætt, og notendur eru ekki lengur varðir gegn nýjum veikleikum í kerfinu. Þrátt fyrir það eru um 250 milljón Windows 10 tæki enn virk um heim allan – og þau hætta ekki að virka. En það er mikilvægt að átta sig á því hvað breytingin þýðir í raun og veru – og hvernig við sem notendur, þjónustuaðilar og fyrirtæki bregðumst við.
Hætt við að uppfærsluleysi leiði til veikleika
Að stýrikerfi fái ekki lengur öryggisuppfærslur þýðir að Microsoft mun ekki bregðast við nýjum veikleikum eða hættum sem upp kunna að koma. Þetta nær einnig til innbyggðrar vírusvarnar (Microsoft Defender), sem margir notendur hafa treyst á í stað sérstakra öryggislausna. Afleiðingin er að stýrikerfið verður smám saman viðkvæmara fyrir netárásum, sérstaklega ef notendur grípa ekki til viðeigandi varna.
Áhrif á hugbúnaðarstuðning og þjónustu
Hugbúnaðarframleiðendur snúa athygli sinni að nýjustu kerfum, sem þýðir að uppfærslur og stuðningur við hugbúnað sem keyrir á Windows 10 verða síður forgangsverkefni. Með tímanum gæti það leitt til þess að nýr hugbúnaður virki illa eða alls ekki á eldra stýrikerfi.
Þá hefur Microsoft einnig hætt allri tæknilegri þjónustu við Windows 10, sem eykur mikilvægi þess að notendur geti sjálfir eða með aðstoð þjónustuaðila haldið kerfum sínum öruggum og gangandi.
Hægt að nota áfram – með varúð
Það er hægt að halda áfram að nota Windows 10, en þá þarf að gera það með opnum augum og vandaðri öryggisstefnu. Fyrirtæki sem hafa hingað til treyst á innbyggða vörn frá Microsoft ættu að endurskoða öryggismál sín. Margir notendur hafa til dæmis innleitt lausnir frá sérhæfðum öryggisfyrirtækjum, s.s. Trend Micro.
Það er þó ekki nóg að setja upp góða vörn – því veikasti hlekkurinn í keðjunni er gjarnan notandinn sjálfur. Forvitni, mistök eða skortur á fræðslu getur gert annars traust kerfi viðkvæmt. Regluleg fræðsla og skýrar öryggisreglur skipta þar miklu máli.
Breiðari sýn á öryggi
Við sem störfum á sviði rafeindatækni sjáum að öryggi snýst ekki aðeins um tölvukerfi. Öll snjalltæki, símkerfi og netbúnaður þurfa reglulegar uppfærslur og vandaða uppsetningu. Eldveggir, aðgangsstýringar og örugg skýjaþjónusta eru orðin nauðsynleg grunnstoð í upplýsingatækniumhverfi fyrirtækja – stórra sem smárra.
Við hvetjum fyrirtæki til að líta á þessar breytingar sem tækifæri til að meta stöðu sína og gera raunhæft mat á öryggisáhættu.
Hvernig veit ég hvort ég er með Windows 10?
Ein leiðin til að greina á milli er að skoða Start-hnappinn:
• Ef hann er hvítur, er um Windows 10 að ræða.
• Ef hann er blár, þá er það Windows 11.
Einnig má fara í Start-leitina og slá inn Windows Specifications til að sjá nákvæmar upplýsingar um útgáfu og útgáfunúmer.
________________________________________
Sterkari öryggismenning – sameiginlegt verkefni
Lok stuðnings við Windows 10 minnir okkur á að stafræn öryggismál eru síbreytileg og snerta alla – hvort sem við erum einstaklingar, þjónustuaðilar eða stjórnendur fyrirtækja. Með því að fylgjast með þróun, taka upplýstar ákvarðanir og innleiða viðeigandi lausnir getum við haldið áfram að nýta tæknina á öruggan og ábyrgan hátt.
________________________________________
Höfundur er formaður Félags rafeindatæknifyrirtækja og framkvæmdastjóri H. Árnason ehf.