Rafmennt
Rafiðnaðarmenn hafa byggt upp og rekið umfangsmikið endurmenntunarkerfi frá árinu 1975. Þann 20. september 1985 stofnuðu endurmenntunarnefndir rafiðna og rafeindavirkja Rafiðnaðarskólann (RS). Lengst af báru nefndirnar ábyrgð á fræðslustarfinu, en árið 1993 var skólanefnd Rafiðnaðarskólans formlega stofnuð og bar hún þá ábyrgð á starfseminni upp frá því. Árið 2004 var rekstri skólans breytt í hlutafélag "Rafiðnaðarskólinn ehf" þar sem hluthafar voru tveir, RSÍ og SART, hvor um sig með 50% hlut.
Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins (FSR) var stofnuð árið 1996 til að halda utan um umsýslu með sveinsprófum og námssamningum ásamt því að vera leiðandi í endurskoðun á grunnnámi rafiðnaðarmanna. Skrifstofan sá einnig um að kynna nám í rafiðnaði fyrir ungu fólki og aðstoða það með frítt námsefni. Á vordögum 2018 ákváðu stjórnir RS og FSR að sameina þessi tvö félög í eitt undir merki RAFMENNTAR fræðslusetur rafiðnaðarins. Öll verkefni sem áður féllu undir RS og FSR voru færð til RAFEMNNTAR. Breytingunum er ætlað að efla þjónustu við félagsmenn og nýta betur það fjármagn sem kemur inn í menntasjóð til að auka fjölbreytileika nýrra námskeiða og kynningu á nýrri tækni.
RAFMENNT er í jafnri eign RSÍ (Rafiðnaðarsamband Íslands) og SART (Samtök rafverktaka).RAFMENNT sinnir nú þeim samningum sem gerðir hafa verið við mennta- og menningarmálaráðuneyti (MMR), Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og fleiri aðila vegna umsýslu námssamninga, framkvæmd sveinsprófa, framkvæmd raunfærnimats og fleiri þátta sem snúa að menntun og kynningu á menntun rafiðnaðarmanna og tæknifólks í rafiðnaði.
Á vefnum rafbok.is er allt námsefni sem notað er til kennslu í rafiðngreinum í framhaldsskólum aðgengilegt nemendum, þeim að kostnaðarlausu. Hægt að finna upplýsingar um menntun í rafiðnaði á vefsíðu RAFMENNTAR. Þar liggja einnig frammi eyðublöð er varðandi námssamninga, raunfærnimat og upplýsingar um sveinspróf. Þangað skulu berast erindi er varða nýja námssamninga, breytingar á námssamningum og umsóknir um sveinspróf. Þá starfar RAFMENNT með starfsgreinaráði fyrir rafiðngreinar samkvæmt reglugerð (nr.711 frá 20. júlí 2009).
Forvarnarleiðbeiningar - Gott að vita varðandi rafmagn
Hér er að finna forvarnarleiðbeiningar sem gefnar eru út í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Leiðbeiningarnar miða að því að auka rafmagnsöryggi á heimilum og vinnustöðum og innihalda mikilvægar ráðleggingar til húseigenda um hvernig draga má úr hættu á slysum og eldsvoðum af völdum rafmagns.
Forvarnarleiðbeiningarnar er að finna á HÉR
Sérhæfð námskeið
Fyrirtæki innan SART geta sótt um styrki til að halda sérhæfð námskeið innan fyrirtækjanna.
Nánari upplýsingar er að finna á www.attin.is
Rafvirkjun
Rafvirkjun er löggilt iðngrein. Rafvirkjar starfa hjá orkufyrirtækjum við framleiðslu og dreifingu raforku, annast uppsetningu og viðhald á raftækjum, iðntölvustýringum og öðrum búnaði í iðnfyrirtækjum og iðjuverum landsins.
Rafvirkjar starfa hjá löggiltum rafverktökum við raflagnir í nýbyggingum, viðhald og endurnýjun gamalla raflagna. Þeir vinna við uppsetningu á ýmsum sérkerfum s.s. loftnetskerfum, aðvörunarkerfum og loftræstikerfum. Þeir annast lagnir og tengingar á síma og tölvukerfum ásamt forritanlegum raflagnakerfum. Þeir annast þjónustu og viðhald rafvéla, raftækja og rafverkfæra ásamt nýlögnum og rekstri kæli- og rafkerfa í farartækjum á sjó og landi.
Rafvirkjar starfa einnig við sölu og ráðgjöf hjá fyrirtækjum sem framleiða og/eða flytja inn og selja rafmagns og lýsingarbúnað.
Rafeindavirkjun
Rafeindavirkjun er löggilt iðngrein sem ávallt skal rekin undir handleiðslu meistara. Rafeindavirkjar starfa m.a. við uppsetningu, viðhald og viðgerðir á rafeindatækjum, notenda- og tölvubúnaði. Þeir gera við almenn rafeindatæki til nota á heimilum t.d. útvarps-, hljómflutnings-, sjónvarps- og myndbandstæki og þann búnað sem tengist þeim m.a. loftnet, loftnetskerfi og gervihnattabúnað.
Þeir setja upp og gera við fjarskipta- og dreifikerfi t.d. endurvarpskerfi og búnað sem flytur upplýsingar í báðar áttir t.d. jarðstöðvar fyrir sjónvarpsmerki. Rafeindavirkjar setja upp og sjá um viðhald á tölvubúnaði og rafeinda- eða örtölvustýrðum búnaði sem honum tengist.
Þeir vinna við fjarskiptabúnað í farartækjum á landi, lofti og sjó t.d. talstöðvar, farsíma, staðsetningartæki, sjálfstýribúnað, ratsjártæki og fiskileitartæki. Rafeindavirkjar geta sérhæft sig í upptöku- og útsendingu efnis með kvikmyndatæki, myndbands-, eða segulbandstæki í hljóð- eða myndveri.