Skortur á faglærðu rafiðnaðarfólki ógnar samkeppnishæfni – staðan er einnig alvarleg á Íslandi

Grein á Vísi vekur athygli á manneklu í rafiðnaði í Evrópu – íslenska menntakerfið ræður ekki við eftirspurnina.

Í nýlegri umfjöllun á Vísi eftir Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóra Sart er fjallað um þann vanda sem blasir við í mörgum Evrópulöndum vegna skorts á faglærðu rafiðnaðarfólki. Vaxandi verkefni í tengslum við orkuskipti, rafvæðingu samgangna og stækkun orkuinnviða hafa skapað mikla eftirspurn eftir menntuðu starfsfólki, en nýliðun í greininni heldur ekki í við þörfina. Í greininni er byggt á gögnum samtakanna EuropeOn, sem Samtök rafverktaka (SART) eiga aðild að.

Í gögnum EuropOn kemur fram að sé ekki brugðist við manneklu og hindrunum í menntakerfinu, er hætta á að orkutengd uppbygging og græn orkuskipti í Evrópu muni dragist verulega.

Íslenskt skólakerfi ræður ekki við áhuga nemenda

Svipaða þróun má sjá hér á landi. Áhugi á námi í rafiðngreinum er mikill og stöðug eftirspurn er á vinnumarkaði eftir faglærðu rafiðnaðarfólki. Hins vegar ráða framhaldsskólarnir ekki við þann fjölda sem sækir um – einkum vegna skorts á fjármagni, aðstöðu og kennslutækjum.

Þessi staða kemur sérstaklega niður á fullorðnu fólki sem hyggst ljúka námi í kvöldskóla. Fjöldi umsækjenda kemst ekki að vegna þess að hvorki er til staðar næg aðstaða né fjárveitingar sem gera skólunum kleift að fjölga nemendum. Þannig verður eftirspurn eftir námi ekki mætt, þrátt fyrir skýra þörf og vilja til að hefja eða ljúka námi.

Samtök rafverktaka kalla eftir úrbótum

SART hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að auka framlög til rafiðnnáms, bæta aðstöðu í skólum og tryggja að námið sé aðgengilegt bæði ungmennum og fullorðnum sem vilja mennta sig á þessu sviði. Ef ekki tekst að tryggja nægilegt framboð af menntuðu fagfólki mun það hafa áhrif á hraða orkuskipta og getu samfélagsins til að bregðast við loftslagsáskorunum.

Að mati SART er tímabært að stokka upp forgangsröðun í fjárveitingum til framhaldsskólanna og koma á fót markvissum aðgerðum sem styðja við nýliðun í rafiðnaði. Þar þarf að horfa sérstaklega til kvöldnáms og endurmenntunar, sem gegna lykilhlutverki í að fjölga faglærðu fólki á vinnumarkaði.