(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Félag rafverktaka á Suðurlandi - Aðalfundur

 

Aðalfundur Félags rafverktaka á Suðurlandi haldinn á Selfossi

Aðalfundur Félags rafverktaka á Suðurlandi (FRS) fór fram fimmtudaginn 11. desember 2025 á Hótel Selfossi. Fundurinn hófst á kynningu frá Ara Bjarnasyni um rafræn vinnustaðaskírteini frá  „Hver ertu?“ þar sem fundarmenn fengu innsýn í það hvernig nota má rafrænu vinnustaðaskírteini til að tryggja öryggi í viðskiptum auk þess að halda utan um réttindanámskeið og staðfestingar á menntun.´

Áhersla á aukið félagsstarf og tengslanet

Magnús Gíslason, formaður FRS, fór yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og vakti sérstaka athygli á mikilvægi þess að efla félagsstarfið umfram hefðbundna aðalfundi. Hvatti hann til aukins samstarfs innan félagsins og við önnur samtök iðnmeistara á svæðinu. Meðal hugmynda voru fræðslufundir, skoðunarferðir og aðrir félagslegir viðburðir sem styrkja tengslanet og samstöðu innan greinarinnar.

Í skýrslu formanns kom einnig fram að FRS hefði ásamt samstarfsaðilum styrkt rafdeild FSU með nýju þjálfunartæki, sem nýtist við kennslu í mótortengingum. Lýsir það vilja félagsins til að styðja við menntun framtíðar fagmanna á Suðurlandi.

Góð verkefnastaða og framtíðarsýn

Verkefnastaða rafverktaka á svæðinu er sögð góð, með fjölda opinberra framkvæmda í gangi eða í undirbúningi, þar á meðal Hvammsvirkjun og nýtt fangelsi í Stóra-Hrauni. Þá var greint frá þátttöku félagsmanna í stefnumótunarfundi SART í haust, þar sem áhersla var lögð á faglega uppbyggingu og framtíðarsýn rafverktakageirans.

Einnig kom fram að rætt hafi verið um hugsanlega sölu á sumarhúsi SART í Grímsnesi, með það að markmiði að fjárfesta í orlofseign sem betur nýtist félagsmönnum – mögulega erlendis.

Kosningar og samþykktir

Reikningar félagsins voru samþykktir samhljóða. Engar breytingar voru lagðar til á félagsgjöldum né samþykktum félagsins að þessu sinni. Kosið var í stjórn samkvæmt lögum félagsins, og heldur núverandi stjórn áfram störfum með örlitlum breytingum: Magnús Gíslason, Guðjón Guðmundsson og Ragnar Ólafsson sitja í stjórn, og Hermann G. Jónsson er varamaður. Þá voru kjörnir skoðunarmenn og fulltrúar í stjórn SART.

Mikilvægi öflugra hagsmunasamtaka

Fundurinn endaði á kvöldverði í boði birgja. Í umræðum kom skýrt fram að félagsmenn vilja sjá aukna virkni í félagsstarfi og samstarfi innan greinarinnar. Félagsskapurinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að styðja við fagmennsku og samkeppnishæfni rafverktaka á Suðurlandi.

 

Árangursríkt starfsár og ný stefna í mótun hjá Félagi rafeindatæknifyrirtækja

 

Aðalfundur FRT fór fram nýverið þar sem farið var yfir viðburðaríkt starfsár. Ljóst er að FRT stendur á tímam

Á starfsárinu 2025 hefur Félag rafeindatæknifyrirtækja (FRT) lagt ríka áherslu á að efla fagmennsku, tryggja réttindi greinarinnar og styrkja stöðu rafeindavirkja sem löggiltrar iðngreinar í tæknivæddu samfélagi. Unnið hefur verið ötullega að hagsmunamálum félagsmanna og stefnumótun til framtíðar.

Nýir félagsmenn og virk þátttaka

Félagið stækkaði á árinu með nýjum félagsmönnum og á starfsárinu hefur stjórn haldið fjóra fundi auk vinnufunda um stefnumótun. Einnig hefur formaður FRT tekið virkan þátt í fundum á vegum Starfsgreinaráðs, SART, Rafmenntar og Samtaka iðnaðarins (SI), þar sem fjallað hefur verið um margvísleg mál er varða menntamál, lagasetningu og réttindi iðngreina.

Áhersla á menntamál og faglega umræðu

Menntamál voru í brennidepli á árinu. Starfsgreinaráð rafeindavirkja fjallaði um nýja námskrá og notkun ferilbóka, en deilur sköpuðust um innleiðingu námskrárinnar og drógu flestir skólar sig út úr verkefninu. FRT hefur einnig verið virkt í að vekja athygli á mikilvægi lögverndaðrar fagmenntunar og kallað eftir því að opinberir aðilar noti rétt starfsheiti við útboð og auglýsingar.

Samstarf og sýnileiki

Félagið tók þátt í auglýsingaherferð SART og hefur lagt áherslu á að kynna starfssvið rafeindavirkja. Einnig hefur verið unnið markvisst að því að tryggja viðurkenningu á eftirlitsskyldu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með fjarskiptalögnum samkvæmt ÍST 151 staðlinum.

Stefnumótun og framtíðarsýn

Í nóvember stóð FRT fyrir málþingi þar sem unnin var greinargerð og S.V.Ó.T. greining fyrir félagið. Þessi vinna er mikilvægur grunnur fyrir áframhaldandi stefnumótun og undirstrikar ásetning félagsins um að tryggja menntun, fagmennsku og réttindi iðngreinarinnar. Niðurstöður málþingsins verða grunnur að innleiðingu nýrrar stefnu á árinu 2026.

Formannsskipti og þakkir

Á aðalfundinum tilkynnti Hjörtur Árnason að hann léti af formennsku eftir yfir tuttugu ára starf í stjórn FRT, þar af fjölda ára sem formaður. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu og sérstaklega Kristjáni Daníel Sigurbergssyni fyrir traust og gott samstarf í gegnum árin.

Talsverð endurnýjun var í stjórn félagsins en hana skipa:

Formaður: Guðni Einarsson

Meðstjórnendur: Halldór Gunnarsson og Sigurður Gunnarsson

Varamenn: Davíð Valdimar Arnalds og Ólafur Friðrik C. Rowell

 Pétur Hákon Halldórsson formaður Sart þakkar Hirti Árnasyni fráfarandi formanni FRT fyrir gott starf í þágu félagsmanna.


Félag rafeindatæknifyrirtækja er aðildarfélag SART og gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja gæði og öryggi í fjarskipta- og rafeindatæknigreinum. Með markvissri stefnumótun og sterkri faglegri sýn vinnur félagið að því að efla greinina og bæta starfsumhverfi rafeindavirkja á Íslandi.

 

Mannvirkjaþing Samtaka iðnaðarins

Mannvirkjaþing Samtaka iðnaðarins verður haldi fimmtudaginn 27. nóvember kl 15-18 í Iðunni Vatnagörðum 20

Dagskráin er einstaklega áhugaverð fyrir alla sem beint eða óbeint koma að innviðauppbyggingu á Íslandi.

Tilvalið er að áframsenda fréttina á vinnufélaga ykkar eða aðra hagaðila sem gætu haft áhuga á þessum viðburði.

Vegna skipulagningar eru þátttakendur beðnir um að skrá sig með því að fylgja skráningarhlekknum.

Skráningarhlekkur: https://www.si.is/starfsemi/vidburdir/2025/11/27/eventnr/2153  

FLR leggur áherslu á fagmennsku og réttindi rafverktaka

Aðalfundur Félags löggiltra rafverktaka (FLR) fór fram 6. nóvember 2024 í Húsi atvinnulífsins. Fundurinn markaði lok viðburðaríks starfsárs þar sem áhersla var lögð á réttindi rafverktaka, menntun, öryggi og faglegt sjálfstæði.
Fjölbreytt verkefni og virkt félagsstarf
Á starfsárinu fundaði stjórn FLR átta sinnum og fjölmörg málefni voru tekin til umræðu, þar á meðal staða og réttindi rafvirkjameistara, öryggismál og samskipti við bæði Veitur og HMS. Í skýrslu formanns kom fram að félagsmenn hafi verið ötulir í að koma ábendingum á framfæri vegna réttindalausrar starfsemi og að nauðsynlegt sé að vekja áframhaldandi athygli á því máli.
Miklar umræður voru einnig um nauðsyn teikniréttinda rafvirkjameistara, aðgengi að útboðsgögnum og verklagsreglur um uppsetningu rafmagnsmæla og spennusetningar. FLR krefst skýrari ferla og samræmingar sem tryggja fagmennsku og öryggi í framkvæmdum.
Þátttaka í stefnumótun og faglegum umræðum
Félagið tók virkan þátt í stefnumótun Sart fyrir næstu fimm ár og var m.a. rætt um menntun, ábyrgð og stöðu iðngreina. Fundir voru haldnir í samstarfi við Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um framtíð meistaranáms í rafvirkjun, og kallað eftir því að meistarar verði virkir þátttakendur í þeirri þróun.
Haldinn var fræðslufundur um framleiðslu og geymslu birtuorku og nýsköpun á því sviði, auk þess sem fundað var með Veitum og HMS vegna breytinga á verkferlum og samskiptum.
Kosningar í stjórn og staðfesting reikninga
Jóhann Unnar Sigurðsson var endurkjörinn formaður FLR til næstu tveggja ára. Auk þess sem kosið var um meðstjórnendur og varamenn.
Stjórn félagsins 2025-2026 skipa:
• Formaður: Jóhann Unnar Sigurðsson
• Meðstjórnendur: Arnar Heiðarsson, Hafþór Ólason, Kristján Sveinbjörnsson, Róbert Einar Jensson
• Varamenn: Snorri Sturluson og Rúnar Kristjánsson
Helgi Kolsöe og Lárus Andri Jónsson voru endurkjörnir sem skoðunarmenn reikninga. Ársreikningur félagsins var samþykktur samhljóða og engar breytingar lagðar til á félagsgjöldum eða samþykktum.
Áhersla á vandaða undirbúning og endurskoðun kerfa
Miklar áhyggjur voru lýstar af slökum árangri nemenda í sveinsprófum og var skorað á meistarana að leggja aukna áherslu á undirbúning nema. Árangur nema á sveinsprófi sýnir svart á hvítu mikilvægi sveinsprófa sem tæki atvinnulífsins til að tryggja rétta hæfni sveina. Þá var rætt um rekstrarumhverfi iðnfyrirtækja og álag sem veikindakostnaður veldur litlum fyrirtækjum. Félagið hvetur til umræðu um breytingar á lögum og reglum í ljósi þróunar á vinnumarkaði.

 

Aron Bjarnason frá Filmís kynnti Rafræn vinnustaðaskírteini frá Hverertu.is sem unnin voru að frumkvæði Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins

Aðalfundur Rafverktakafélags Suðurnesja

Aðalfundur Rafverktakafélags Suðurnesja fór fram á Hótel Keflavík 6. nóvember 2025 þar sem farið var yfir stöðu félagsins, kosið í embætti og rætt um málefni greinarinnar. Fundurinn fór löglega fram og var vel sóttur.

Formaður félagsins, Hjörleifur Stefánsson, flutti skýrslu stjórnar þar sem fram kom að félagsstarfið hafi að mestu farið fram í gegnum þátttöku í Sart, en formaður RS situr í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna og ritari er varamaður í stjórn. RS á einnig í góðu samstarfi við Samtök iðnaðarins, meðal annars um stefnumótun og vöktun á atvinnuþróun. 
Atvinnuástand rafverktaka á Suðurnesjum er gott þrátt fyrir vissar blikur og áframhaldandi skort á faglærðu starfsfólki. Á liðnu ári útskrifuðust 18 einstaklingar með sveinspróf í rafvirkjun, þar af einn í rafveituvirkjun.

Ný verkefni og sameiginlegir viðburðir:
Félagið tók þátt í fjölbreyttum viðburðum á árinu. Meðal annars var haldið golfmót rafvirkja í Sandgerði með góðri þátttöku. Nýtt verklag var tekið upp þar sem eitt fyrirtæki sér um mótshald hverju sinni, og mun SI Raflagnir ehf. annast mótið árið 2026.
RS stóð einnig að starfsgreinakynningu fyrir nemendur í íþróttahúsinu við Sunnubraut, í samstarfi við Rafmennt. Þá fór fyrsti haustfundur stjórnar Sart fram í Keflavík, og í tengslum við hann var skipulagður stefnumótunarfundur með góðri þátttöku.
Kosningar og heiðursviðurkenningar:
Kosið var um stöðu ritara til þriggja ára, og hlaut Guðmundur Ingólfsson einróma stuðning. Núverandi stjórn félagsins skipa:

Formaður: Hjörleifur Stefánsson
Ritari: Guðmundur Ingólfsson
Gjaldkeri: Björn Kristinsson
Varamaður: Ólafur Róbertsson

Arnbjörn Óskarsson var gerður að heiðursfélaga RS og minnst var Ingvars Hallgrímssonar, sem lést á árinu.
Umræður um vottanir og skráningu félags:
Á fundinum var rætt um mikilvægi heilbrigðisvottorða fyrir fyrirtæki, sem nú er aftur komið á dagskrá innan stjórnar SI og SA. Formaður RS leggur mikla áherslu á að nýta nútímatækni til að einfalda ferlið.

Einnig kom fram gagnrýni á umhverfisvottanir eins og Svans og Breeam, sem geta valdið miklu auknu vinnuálagi við gagnaöflun – án þess að endilega skili sér í betri gæðum. Þó sé hægt að fá hagstæðari fjármögnun með slíkar vottanir.

Skráning félagsins í fyrirtækjaskrá sem Rafverktakafélag Suðurnesja var formlega samþykkt og ákveðið að bæði ritari og gjaldkeri verði prókúruhafar.

Traustur stuðningur og samstarf:
Fundinum lauk með kvöldverði á vegum Reykjafells, sem hlaut sérstakar þakkir frá formanni fyrir stuðning við félagið og góða þjónustu við Suðurnesjamenn. Fram kom að höfuðstöðvar Reykjafells flytja að Korputorgi í janúar 2026, þar sem starfsumhverfið mun taka stórt stökk fram á við.

 Arnbjörn Óskarsson var gerður að Heiðursfélaga Rafverktakafélags Suðurnesja, hér tekur hann við viðurkenningu frá Hjörleifi Stefánssyni formanni RS 

Orkuvirki fagnar 50 ára afmæli

Orkuvirki sem er aðildarfyrirtæki Samtaka rafverktaka og Samtaka iðnaðarins, fagnar á þessu ári 50 ára starfsafmæli. Af því tilefni var blásið til afmælisveislu í húsnæði fyrirtækisins að Tunguhálsi 3 í Reykjavík. Þar komu saman starfsfólk, birgjar og viðskiptavinir og áttu ánægjulega samverustund. Ríkulega var fagnað tímamótunum og gleði ríkti meðal gesta.

Afmælisárinu 2025 hefur verið fagnað með þremur sérstökum viðburðum. Fyrst var efnt til tónleika með tónlistarmanninum Mugison í Salnum í Kópavogi, síðan var haldið afmælisgolfmót á Garðavelli á Akranesi og loks afmælishóf í höfuðstöðvum Orkuvirkis í Reykjavík.

Viðburðirnir endurspegla þann góða anda sem einkennir starfsemi fyrirtækisins og voru vel sóttir af samstarfsaðilum og viðskiptavinum Orkuvirkis.
Orkuvirki er eitt af elstu verktakafyrirtækjum landsins og hefur frá upphafi verið leiðandi í þróun og uppbyggingu á sviði orkuiðnaðar og veitukerfa. Fyrirtækið þjónustar meðal annars stóriðju, veitufyrirtæki og aðra stórnotendur og hefur áratuga reynslu af tæknilegum lausnum á þessu sviði.

Með sterkri fagþekkingu og stöðugri þróun hefur Orkuvirki átt stóran þátt í mótun innviða á Íslandi.
Starfsemi Orkuvirkis er gott dæmi um mikilvægi öflugra fyrirtækja í verktaka- og tæknigeiranum fyrir innviði samfélagsins. Samtök rafverktaka óskar eigendum og starfsfólki Orkuvirkis til hamingju með þessi tímamót og minna á mikilvægi þess að skapa traust og hagkvæmt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki sem leggja sitt af mörkum til orkuiðnaðarins og byggðarþróunar á Íslandi.


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.