(+354) 591 0100

Símanúmer

sart@si.is

Netfang

Borgartún 35

Staðsetning

Fréttir

Ný greining á hæfniþörf í rafiðnaði

Samtök iðnaðarins hafa unnið greiningu á hæfniþörf í rafiðnaði.

Þar kemu fram að forsvarsmenn fyrirtækja í rafiðnaði áætla að það þurfi 940 nýja starfsmenn til að mæta vexti greinarinnar til næstu 5 ára en af þeim fjölda þarf 220 til að koma í stað þeirra sem munu láta af störfum vegn aldurs.

Alls telja fyrirtækin sig þurfa að ráða 800 nýja rafvirkja til starfa á árunum 2024-2028.

 

Sjá nánar frétt á vef SI  

í Viðskiptablaðinu er einnig fjallað um greininguna

 

Fundarboð - Aðalfundur Sart

Fundarboð - takið daginn frá!

 

Aðalfundur Sart verður haldinn föstudaginn 8. mars kl. 08:30 á Grand Hótel Reykjavík

Mikilvægt að fylgja fyrirmælum HS Veitna

Í aðstæðum eins og nú hafa raungerst á Reykjanesi við það að heitavatnsæðin frá Svartsengi rofnaði er mikilvægt að huga að rafmagnsöryggi heimila og fyrirtækja.
Viðbúið er að húseigendur freistist til að tengja fleiri rafmagnsofna en rafkerfið ræður við og þá kann að vera stutt í útslátt í rafmagnstöflum heimila eða jafnvel að dreifikerfi veitufyrirtækja slái út. Hafa ber í huga að við þessar aðstæður þarf að takmarka eftir því sem framast er unnt, samtímanotkun orkufrekra heimilistækja.  
Mikilvægt er að húseigendur kynni sér fyrirmæli HS veitna sem hafa gefið út ítarlegar leiðbeiningar til húseigenda um rafmagnsnotkun ef heitt vatn dettur út og notast á við rafmagn til kyndingar. Þar er lögð áhersla á að hver íbúð nota að hámarki 2500W (2,5kW) til húshitunar
Þá hefur HMS einnig sett inn á vef sinn hvatningu til húseigenda um að gæta fyllsta öryggis í umgengni við rafmagnsofna.

Stjórn Félags rafverktaka á Austurlandi endurkjörin

Aðalfundur Félags rafverktaka á Austurlandi, FRA, var haldinn föstudaginn 19. janúar sl. Á fundinum var stjórn félagsins endurkjörin en hana skipa Hrafnkell Guðjónsson formaður, Helgi Ragnarsson ritari, Ómar Yngvason gjaldkeri og Þórarinn Hrafnkelsson varamaður.

Undir liðnum önnur mál kynnti Hjörleifur Stefánssson, formaður SART, fyrir félagsmönnum stöðuna í kjarasamningsviðræðum SA við forystu Rafiðnaðarsambandsins, þar að auki kynnti Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART, verkfæra appið Veistu hvar sem öll aðildarfyrirtæki SART hafa gjaldfrjálsan aðgang að.

Að fundi loknum flutti Óskar Frank Guðmundsson fundarmönnum fróðlegt erindi þar sem hann kynnti áhugaverða tölfræði um fjölda þjónustubeiðna og lokatilkynninga sem berast til HMS auk þess sem hann ræddi um algengar athugasemdir skoðunarstofa og mælingar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla.

Á myndinni hér fyrir ofan eru Ómar Yngvason, Kristján D. Sigurbergsson, Hjörleifur Stefánsson, Helgi Ragnarsson og Hrafnkell Guðjónsson.

 

 

Hjörleifur Stefánsson formaður SART

 

Óskar Frank Guðmundsson, sérfræðingur á Rafmagnsöryggissviði HMS

 

Um áramót

Keflavík, desember 2023


Árið sem er að líða er um margt mjög sérstakt og fær mann til að horfa öðrum augum á hin ýmsu mál, ekki síst í mínu nærumhverfi á Suðurnesjum þar sem vitundarvakning er að verða um  innviði og öryggi þeirra enda hefur hefur ýmislegt gengið á af náttúrunnar völdum  sem er þess valdandi að hugsa þarf þessi mál upp á nýtt.

 Mér er alltaf að verða betur ljóst að uppbygging orkuinnviða þarf að fara fram með almannaheill í huga en ekki áliti og hugsjón oft lítilla hópa. Tel ég augljóst að við Íslendingar þurfum að fara að taka okkur taki er varðar fullnýtingu orku sem við notum og hafa það hugfast að okkar auðlindir eru ekki óþrjótandi. Leggja  þarf í vegferð til að finna nýjar lausnir og hætta þeirri orkusóun sem hér hefur viðgengist síðustu áratugi.

Starfsemi Sart á síðasta ári var hefðbundin og er unnið mjög gott starf á skrifstofunni í samstarfi við SI.
Helstu mál er báru á góma er framhaldssagan um „stóra víramálið” sem kom upp vegna túlkunar einstakra skoðunarmanna er varðar hitastig í töflum og töflurýmum. Hópur á vegum Sart hefur átt fjölmarga fundi vegna þessa máls og fer vonandi að sjá fyrir endann á því og nýlega voru að undirlagi Sart gefnar út leiðbeiningar við byggingareglugerð er varðar loftræstingu töflurýma.

Stjórn Sart hefur verið mjög opin fyrir nýjungum sem ættu að auðvelda rafverktökum utanumhald og rekstur sinna fyrirtækja. Nýjasta afurðin er verkfæraappið Veistu hvar og væntanleg er uppfærsla á appinu sem mun einfalda rekstur á bílaflota aðildarfyrirtækja Sart. Þetta ásamt fagtengdum stöðlum er aðgengilegt félagsmönnum án endurgjalds og má nálgast upplýsingar um þessa þjónustu við félagsmenn á innri vef Sart.

Mikil starfsemi er í menntastofnun okkar Rafmennt og sókn í námskeið mjög góð. Rafmennt byrjaði á árinu að útskrifa meistara frá skólanum og er þar lykillinn að vera með vottun sem menntastofnun á framhaldsskólastigi. Á haustdögum hófst nám hjá Rafmennt fyrir þá rafiðnaðarmenn sem af einhverjum völdum passa ekki inn í hefðbundið menntakerfi vegna of hás aldurs eða af öðrum orsökum, ríflega 20 hófu nám í haust og tel ég að þetta fyrirkomulag sé komið til að vera.

Starfsmannaskortur virðist vera viðvarandi hjá fyrirtækjum. Nauðsynlegt er að strax verði farið í vegferð að fjölga nemum í rafiðnaði og eina úrræðið sem við höfum er að stórauka aðgengi að náminu með mikilli fjölgun nemaplássa í skólunum. Markaðurinn hefur sýnt að það er hægt að tvöfalda fjölda útskrifaðra.

Farið var í umfangsmikið viðhald á sumarhúsi Sart sem var löngu tímabært, skipt var um glugga og utanhússklæðningu auk þess sem endurbætur voru gerðar innandyra. Ég tel að á næstu árum þurfi að setja töluverða fjármuni í húsið ef Sart ætlar að halda því áfram úti.
Sart hefur verið í fararbroddi með auglýsingar undir merkjum Meistarinn.is og tel ég að fjármunum sé vel varið í þetta málefni.

Sart er í töluverðu erlendu samstarfi á Norðurlöndum og nú til prufu til 2ja ára í Evrópusamstarfi með Samtökum rafverktaka frá 16 Evrópulöndum undir merkjum EuropeOn. Ég tel að með þessu fái félagsmenn víðari sýn á ýmis mál er snerta okkur í verkefnum okkar og rekstri.

Fram undan eru kjarasamningsviðræður og bind ég miklar vonir við að gerður verði langtímasamningur með það að meginmarkmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum. Samkvæmt síðustu fréttum virðast nánast allir aðilar á sama máli.

Að lokum vil ég færa stjórn, framkvæmdastjóra og starfsfólki SI þakkir fyrir frábært samstarf á árinu.

Góðar stundir.
 
Hjörleifur Stefánsson
Formaður Sart

Gleðilega hátíð


Samtök rafverktaka
Borgartún 35, 105 Reykjavík

Sími 591 0100
Fax 591 0101
Kt. 420269-0729
sart@si.is

Sterkari saman

Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Öryggi - Fagmennska

Merki samtakanna eru skrásett vörumerki og eru trygging fyrir fagmennsku, öryggi og traustum viðskiptaháttum.