Keflavík, desember 2023
Árið sem er að líða er um margt mjög sérstakt og fær mann til að horfa öðrum augum á hin ýmsu mál, ekki síst í mínu nærumhverfi á Suðurnesjum þar sem vitundarvakning er að verða um innviði og öryggi þeirra enda hefur hefur ýmislegt gengið á af náttúrunnar völdum sem er þess valdandi að hugsa þarf þessi mál upp á nýtt.
Mér er alltaf að verða betur ljóst að uppbygging orkuinnviða þarf að fara fram með almannaheill í huga en ekki áliti og hugsjón oft lítilla hópa. Tel ég augljóst að við Íslendingar þurfum að fara að taka okkur taki er varðar fullnýtingu orku sem við notum og hafa það hugfast að okkar auðlindir eru ekki óþrjótandi. Leggja þarf í vegferð til að finna nýjar lausnir og hætta þeirri orkusóun sem hér hefur viðgengist síðustu áratugi.
Starfsemi Sart á síðasta ári var hefðbundin og er unnið mjög gott starf á skrifstofunni í samstarfi við SI.
Helstu mál er báru á góma er framhaldssagan um „stóra víramálið” sem kom upp vegna túlkunar einstakra skoðunarmanna er varðar hitastig í töflum og töflurýmum. Hópur á vegum Sart hefur átt fjölmarga fundi vegna þessa máls og fer vonandi að sjá fyrir endann á því og nýlega voru að undirlagi Sart gefnar út leiðbeiningar við byggingareglugerð er varðar loftræstingu töflurýma.
Stjórn Sart hefur verið mjög opin fyrir nýjungum sem ættu að auðvelda rafverktökum utanumhald og rekstur sinna fyrirtækja. Nýjasta afurðin er verkfæraappið
Veistu hvar og væntanleg er uppfærsla á appinu sem mun einfalda rekstur á bílaflota aðildarfyrirtækja Sart. Þetta ásamt fagtengdum stöðlum er aðgengilegt félagsmönnum án endurgjalds og má nálgast upplýsingar um þessa þjónustu við félagsmenn á innri vef Sart.
Mikil starfsemi er í menntastofnun okkar
Rafmennt og sókn í námskeið mjög góð. Rafmennt byrjaði á árinu að útskrifa meistara frá skólanum og er þar lykillinn að vera með vottun sem menntastofnun á framhaldsskólastigi. Á haustdögum hófst nám hjá Rafmennt fyrir þá rafiðnaðarmenn sem af einhverjum völdum passa ekki inn í hefðbundið menntakerfi vegna of hás aldurs eða af öðrum orsökum, ríflega 20 hófu nám í haust og tel ég að þetta fyrirkomulag sé komið til að vera.
Starfsmannaskortur virðist vera viðvarandi hjá fyrirtækjum. Nauðsynlegt er að strax verði farið í vegferð að fjölga nemum í rafiðnaði og eina úrræðið sem við höfum er að stórauka aðgengi að náminu með mikilli fjölgun nemaplássa í skólunum. Markaðurinn hefur sýnt að það er hægt að tvöfalda fjölda útskrifaðra.
Farið var í umfangsmikið viðhald á sumarhúsi Sart sem var löngu tímabært, skipt var um glugga og utanhússklæðningu auk þess sem endurbætur voru gerðar innandyra. Ég tel að á næstu árum þurfi að setja töluverða fjármuni í húsið ef Sart ætlar að halda því áfram úti.
Sart hefur verið í fararbroddi með auglýsingar undir merkjum Meistarinn.is og tel ég að fjármunum sé vel varið í þetta málefni.
Sart er í töluverðu erlendu samstarfi á Norðurlöndum og nú til prufu til 2ja ára í Evrópusamstarfi með Samtökum rafverktaka frá 16 Evrópulöndum undir merkjum
EuropeOn. Ég tel að með þessu fái félagsmenn víðari sýn á ýmis mál er snerta okkur í verkefnum okkar og rekstri.
Fram undan eru kjarasamningsviðræður og bind ég miklar vonir við að gerður verði langtímasamningur með það að meginmarkmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum. Samkvæmt síðustu fréttum virðast nánast allir aðilar á sama máli.
Að lokum vil ég færa stjórn, framkvæmdastjóra og starfsfólki SI þakkir fyrir frábært samstarf á árinu.
Góðar stundir.
Hjörleifur Stefánsson
Formaður Sart