Samspil hitastigs og sverleika tauga í rafmagnstöflum – Nýjar leiðbeiningar HMS og SART

Samtök rafverktaka (SART) vekja athygli löggiltra rafverktaka á vaxandi vandamáli tengdu háu hitastigi í rafmagnstöflum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur á undanförnum misserum fengið ábendingar um illa farnar og jafnvel brunnar taugar í rafmagnstöflum, oft tengdar auknu og stöðugu álagi. Þetta álag getur valdið hækkandi hitastigi í töflum og haft alvarlegar afleiðingar.


Hár hiti í rafmagnstöflum getur:
     • Minnkað straumflutningsgetu töflutauga.
     • Stytt líftíma búnaðar í töflum, svo sem var- og rafeindabúnaðar.
     • Í verstu tilfellum valdið bruna og hættu á eignatjóni eða slysum.

Ábyrgð rafverktaka og töflusmiða

Eitt mikilvægasta verkefni rafverktaka og töflusmiða er að staðfesta og sannreyna hitastigshækkun innan rafmagnstöflu við venjulega notkun. Rétt val á töflutaugum, með tilliti til straumflutningsgetu, og trygging þess að búnaður starfi innan leyfilegs hitastigs eru lykilatriði í öryggi rafkerfa.
Í þessu samhengi er mikilvægt að minna á ákvæði í grein 6.12.4 í byggingarreglugerð, sem segir að:
„Leitast skal við að hafa stofnkassa, mælatöflur og/eða aðaltöflur rafmagns í sérstöku töfluherbergi. Þar sem því verður ekki við komið skal tryggja að hitastig rýmis og raki í því sé í samræmi við hönnunarforsendur rafkerfis. Hitastig í töflurými ætti ekki að vera hærra en 25°C. Jafnframt skal tryggja að staðsetning yfirþrýstingsloka og annars búnaðar vatnsinntaka sé ekki með þeim hætti að það geti haft áhrif á starfsemi rafkerfa.“
Þetta ákvæði undirstrikar nauðsyn þess að tryggja að umhverfisaðstæður í töflurýmum séu í samræmi við kröfur um öruggan og áreiðanlegan rekstur rafkerfa.

Aðkoma Fagnefndar SART

Fagnefnd SART hefur unnið náið með HMS að gerð nýrra leiðbeininga sem fjalla ítarlega um hitastig og taugar í rafmagnstöflum. Í þessum leiðbeiningum er fjallað meðal annars um:
     • Kröfur sem gilda um hitastig í rafmagnstöflum.
     • Áhrif hita á straumflutningsgetu tauga og líftíma búnaðar.
     • Ákvörðun um þversnið töflutauga í samræmi við álag.

Leiðbeiningarnar eru lykilverkfæri fyrir hönnuði, rafverktaka og töflusmiði til að tryggja að hitastig í rafmagnstöflum sé innan öruggra marka og að rekstur kerfa sé traustur.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér: HLEKKUR Á PDF

SART hvetur alla löggilta rafverktaka til að kynna sér þessar leiðbeiningar og innleiða þær í starfshætti sína til að auka öryggi og draga úr hættu á bilunum eða slysum.