Stór áfangi í baráttu fyrir útboði á viðhaldi og endurnýjun á götulýsingu í Reykjavík
Stór áfangi hefur náðst í baráttunni fyrir því að viðhald og endurnýjun götulýsingar á öllu höfuðborgarsvæðinu verði boðið út á almennum markaði.
Undanfari þessa máls er að í maí 2020 kærðu Samtök iðnaðarins þjónustusamninga og aðra samninga milli Reykjavíkurborgar og Orku náttúrunnar og kröfðust þess að að borginni yrði gert skylt að bjóða út viðhald og endurnýjun götulýsingar.
Kærunefnd útboðsmála felldi úrskurð þann 19. maí sl. þar sem Reykjavíkurborg var dæmd til að greiða Stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 2.000.000.- í ríkissjóð og málskostnað kr. 1.000.0000.- til Samtaka iðnaðarins. Auk þess sem að í úrskurðar orðum var lagt fyrir borgina að bjóða út þjónustu við útskipti og uppsetningu LED lampa í Reykjavík.
Í framhaldi af úrskurðinum skoruðu Samtök iðnaðarins í júní sl. á borgarstjóra að hlíta þessum úrskurði og fara með þessi verkefni í útboð.
Nú loksins hillir undir að þetta verði að veruleika þar sem Fréttablaðið greinir frá 13. nóvember 2021 að Reykjavíkurborg stefni á útboð á LED væðingu og raforkukaupum borgarinnar, en þar er haft eftir formanni borgarráðs og oddvita Viðreisnar, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttir, að um sé að ræða innkaup sem nemi hundruðum milljóna á ári og gætu sparað verulega rekstrarkostnað. Málið hafi verið rætt á fundi borgarráðs í vikunni þar sem farið var yfir úrskurð áfrýjunarnefndar útboðsmála frá því maí.
Þessum sinnaskiptum hjá Reykjavíkurborg ber að fagna en áður höfðu Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur ákveðið að setja verkefni er snúa að áðurnefndum verkþáttum í útboð
Fréttablaðið 13. nóvember 2021