Fulltrúi SART tók þátt í vinnustofu NOREK

Fulltrúar aðildarfélaga Rafstaðlaráðs tóku þátt í vinnustofu norrænna rafstaðlastofnana, NOREK, sem haldin var í byrjun júní í Kaupmannahöfn undir yfirskriftinni „Young professionals“. Markmið vinnustofunnar var að kynna staðlavinnu fyrir ungum sérfræðingum, undir 36 ára að aldri, sem hafa áhuga á eða hagsmuni af stöðlun og samræmismati eða sviðum, s.s. öryggi, áreiðanleika, nýsköpun og þróun, auk þess að vera áhugasöm um að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Fulltrúar frá Íslandi á vinnustofunni voru Bergrós Björk Bjarnadóttir, Guðmundur Valsson, Andri Viðar Kristmannsson og Sólon Ívar Símonarson. Auk þess voru Snædís Danielsdóttir og Sigríður Jónsdóttir sem báðar stunda nám í tækniháskólanum DTU.

Bergrós Björk Bjarnadóttir var fulltrúi Samtaka rafverktaka, SART, í vinnustofunni en hún er löggiltur rafverktaki og rekur fyrirtækið Neisti rafverktakar ásamt því að vera varamaður í stjórn Félags löggiltra rafverktaka, FLR. Bergrós segir að um hafi verið að ræða vinnustofu fyrir unga fagmenn í rafmagnsgreinum. „Þarna komum við saman a.m.k. 50 einstaklingar til þess að finna nýjar lausnir til þess að tækla alheimsmarkmið SDG 7 en á hverju ári er nýtt mál tekið til skoðunar. Í þetta skipti áttum við að vinna í hópum við að búa til staðal sem gæti tryggt fólki sjálfbæran og áreiðanlegan orkugjafa um allan heim. Margar tillögur um staðla komu upp á yfirborðið en það sem stóð upp úr að mati “dómnefndar” var hugmynd um að hafa rafhlöður í heimahúsum. Tillagan var þess efnis að reiknuð yrði notkun fyrir hvert heimili og stærð rafhlaðna eftir því, síðan myndi álagið deilast og jafnast þar sem hlaðið yrði inn á rafgeymana en ekki alla í einu.“

Hún segir að meginmarkmið vinnustofunnar sé tað kynna ungum fagmönnum hvernig rafstaðlaráð virkar og vinna upp áhuga fólks til að koma inn í nefndir sem og að kynnast jafningjum á Norðurlöndunum. „Það sem kom mér mest á óvart var að þrátt fyrir að staðlar séu vissulega nauðsynlegir til að allt virki og öryggið sé í fyrirrúmi þá eru staðlar á borð við IEC og ISO helst til þess að gæta hagsmuna heildsala og fyrirtækja í Evrópu sem og einstakra landa að gæta sinna hagsmuna.“

 

Á myndinni eru Sólon Ívar Símonarson frá RARIK, Andri Viðar Kristmannsson frá RARIK,  Snædís Daníelsdóttir frá DTU, Sigríður Jónsdóttir frá DTU, Bergrós Björk Bjarnadóttir frá Neisti rafverktakar og Guðmundur Valsson frá Staðlaráði.