Félag rafverktaka á Suðurlandi - Aðalfundur
Aðalfundur Félags rafverktaka á Suðurlandi haldinn á Selfossi
Aðalfundur Félags rafverktaka á Suðurlandi (FRS) fór fram fimmtudaginn 11. desember 2025 á Hótel Selfossi. Fundurinn hófst á kynningu frá Ara Bjarnasyni um rafræn vinnustaðaskírteini frá „Hver ertu?“ þar sem fundarmenn fengu innsýn í það hvernig nota má rafrænu vinnustaðaskírteini til að tryggja öryggi í viðskiptum auk þess að halda utan um réttindanámskeið og staðfestingar á menntun.´
Áhersla á aukið félagsstarf og tengslanet
Magnús Gíslason, formaður FRS, fór yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og vakti sérstaka athygli á mikilvægi þess að efla félagsstarfið umfram hefðbundna aðalfundi. Hvatti hann til aukins samstarfs innan félagsins og við önnur samtök iðnmeistara á svæðinu. Meðal hugmynda voru fræðslufundir, skoðunarferðir og aðrir félagslegir viðburðir sem styrkja tengslanet og samstöðu innan greinarinnar.
Í skýrslu formanns kom einnig fram að FRS hefði ásamt samstarfsaðilum styrkt rafdeild FSU með nýju þjálfunartæki, sem nýtist við kennslu í mótortengingum. Lýsir það vilja félagsins til að styðja við menntun framtíðar fagmanna á Suðurlandi.
Góð verkefnastaða og framtíðarsýn
Verkefnastaða rafverktaka á svæðinu er sögð góð, með fjölda opinberra framkvæmda í gangi eða í undirbúningi, þar á meðal Hvammsvirkjun og nýtt fangelsi í Stóra-Hrauni. Þá var greint frá þátttöku félagsmanna í stefnumótunarfundi SART í haust, þar sem áhersla var lögð á faglega uppbyggingu og framtíðarsýn rafverktakageirans.
Einnig kom fram að rætt hafi verið um hugsanlega sölu á sumarhúsi SART í Grímsnesi, með það að markmiði að fjárfesta í orlofseign sem betur nýtist félagsmönnum – mögulega erlendis.
Kosningar og samþykktir
Reikningar félagsins voru samþykktir samhljóða. Engar breytingar voru lagðar til á félagsgjöldum né samþykktum félagsins að þessu sinni. Kosið var í stjórn samkvæmt lögum félagsins, og heldur núverandi stjórn áfram störfum með örlitlum breytingum: Magnús Gíslason, Guðjón Guðmundsson og Ragnar Ólafsson sitja í stjórn, og Hermann G. Jónsson er varamaður. Þá voru kjörnir skoðunarmenn og fulltrúar í stjórn SART.
Mikilvægi öflugra hagsmunasamtaka
Fundurinn endaði á kvöldverði í boði birgja. Í umræðum kom skýrt fram að félagsmenn vilja sjá aukna virkni í félagsstarfi og samstarfi innan greinarinnar. Félagsskapurinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að styðja við fagmennsku og samkeppnishæfni rafverktaka á Suðurlandi.


