Nýtt námskeið hjá Rafmennt: Alþjóðlega vottuð þekking á umferðarljósum og stýringum

 

 

Nýtt námskeið hjá Rafmennt: Alþjóðlega vottuð þekking á umferðarljósum og stýringum    

Rafmennt hefur þróað nýtt sérhæft námskeið sem ætlað er löggiltum rafverktökum og tæknimönnum sem starfa eða hyggjast starfa við uppsetningu og viðhald umferðaljósakerfa. Námskeiðið heitir Umferðarljós og stýringar (STÝR16UMF) og verður í boði frá og með febrúar 2026. Að námskeiði loknu fá þátttakendur alþjóðlega vottun sem gildir í fimm ár og uppfyllir kröfur sveitarfélaga um hæfni til starfa á þessu sviði.

Þörf sem kom frá sveitarfélögunum

Frumkvæðið að námskeiðinu kom frá sveitarfélögum víðs vegar um land sem leituðu til Rafmenntar eftir sérhæfðri fræðslu fyrir rafverktaka og tæknifólk. Sveitarfélögin munu gera kröfu um slíka menntun í framtíðarsamningum og útboðum er varða uppsetningu og rekstur umferðarljósakerfa.

Hagnýt þjálfun og alþjóðleg viðmið

Námskeiðið sameinar bóklega kennslu og verklega þjálfun. Fjallað verður meðal annars um:

  • Evrópustaðla (EN 12368, EN 12675, EN 50556 o.fl.) og íslenskar reglugerðir
  • Grunnvirkni ljósastýringar, skynjara og stjórnbúnaðar
  • Öryggisatriði, rafmagnsöryggi og netöryggi
  • Uppsetningu, prófanir, gangsetningu og bilanagreiningu
  • Reglubundið viðhald yfir 24 mánaða tímabil
  • Ábyrgð og áhættu í tengslum við bilun og viðbrögð

Námskeiðið fer fram á ensku og er kennt af sérfræðingum Yunex Traffic

Skyldunámskeið og skírteini

Til viðbótar við aðalnámskeiðið þurfa þátttakendur að ljúka námskeiðinu Merking vinnusvæða, sem kennt er í samstarfi við Opna háskólann. Rafmennt býður afslátt af því námskeiði fyrir þá sem nýta Endurmenntunarsjóð Rafiðnarins. Rafmennt heldur jafnframt utan um skírteini og gildistíma þeirra.

Stuðlar að öruggari og faglegri uppbyggingu innviða

Með námskeiðinu styður Rafmennt við faglega þróun í greininni og kemur til móts við skýra þörf sveitarfélaga fyrir hæft starfsfólk á þessu sviði. Slíkt námskeið fellur vel að markmiðum Samtaka rafverktaka um að efla þekkingu innan aðildarfyrirtækja Sart, ásamt því að auka öryggi og tryggja gæði í framkvæmdum sem snerta opinbera innviði. Með vottun á alþjóðlegum stöðlum er einnig stuðlað að bættri samkeppnishæfni íslensks iðnaðar á þessu sviði.