Aðalfundur Félags rafverktaka á Vestfjörðum haldinn á Ísafirði
Félag rafverktaka á Vestfjörðum (FRVF) hélt aðalfund sinn föstudaginn 16. janúar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Fundinn sátu fulltrúar frá ýmsum rafverktakafyrirtækjum á svæðinu ásamt gestum frá Samtökum rafverktaka (SART) og Samtökum iðnaðarins (SI).
Samdráttur í byggingariðnaði og aukið framboð ungs starfsfólks
Í skýrslu stjórnar kom fram að starfsemi félagsins hafi verið með svipuðum hætti og undanfarin ár, en þó hafi orðið nokkur hreyfing á vinnumarkaði þar sem fyrirtæki í öðrum greinum hafi sótt í starfsfólk með reynslu frá rafverktökum. Á móti vegi að aukið framboð sé af ungu fólki að koma inn í greinina. Þá var tekið undir áhyggjur af yfirvofandi samdrætti í byggingariðnaði sem nú þegar hefur tekið að hafa áhrif á starfsemi rafverktaka á Vestfjörðum.
Áhersla á menntamál og eflingu rafiðnaðardeildar MÍ
Formaður félagsins, Sævar Óskarsson, lagði fram tillögu um að fjármunum úr sjóðum félagsins til kaupa á sérhæfðum kennslubúnaði fyrir rafiðnaðardeild Menntaskólans á Ísafirði. Markmið verkefnisins er að styðja við menntun nýrra rafiðnaðarmanna og efla aðstöðu skólans. Fundurinn samþykkti tillöguna einróma og verður einnig leitað eftir samstarfi við fyrirtæki á svæðinu til að fjármagna verkefnið frekar.
Breytingar í stjórn félagsins
Einar Ágúst Yngvason tók við sem gjaldkeri félagsins og Ólafur Kristjánsson var kjörinn nýr stjórnarmaður til þriggja ára. Karl Þór Þórisson var kjörinn varamaður stjórnar til tveggja ára. Sævar Óskarsson gegnir áfram formennsku í félaginu.
Fræðsla og framtíðarsýn
Á fundinum flutti Óskar Guðmundsson, sérfræðingur í rafmagnsöryggi hjá HMS fræðslu um nýjungar tengdar birtuorku og rafhlöðuvikjum. Óskar Þá var rætt um mikilvægi þess að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna til að draga úr svartari atvinnustarfsemi og stuðla að lægri byggingarkostnaði. Jafnframt var minnt á Iðnþing Samtaka iðnaðarins sem haldið verður fimmtudaginn 5. mars auk þess sem tilkynnt var að aðalfundur Sart verði haldinn föstudaginn 6. Mars þar sem kynntar verða niðurstöður stefnumótunarvinnu og ný stefna Sart fyrir árin 2026-2030.
Félag rafverktaka á Vestfjörðum er eitt af átta aðildarfélögum Samtaka rafverktaka (SART). Framlög félagsins til menntunar og framtíðarsýnar endurspegla þá mikilvægu hagsmunabaráttu sem Samtök rafverktaka og Samtök iðnaðarins standa fyrir – að efla iðngreinarnar, styðja við nýliðun og tryggja öflugt og sanngjarnt starfsumhverfi fyrir rafverktaka um allt land.

Kristján D. Sigurbergsson framkvæmdastjóri Sart, Sævar Óskarsson formaður FRVF og Pétur H. Halldórsson formaður Sart


