Rafræn ferilbók formlega opnuð
Helgi Rafnsson framkvæmdastjóri Rafholts braut blað í sögu iðnnáms á Íslandi þegar hann skrifaði undi fyrstu rafrænu námssamninganna við Máney Evu Einarsdóttur og Jón Frey Eyþórsson nema í rafvirkjun, auk þeirra skrifaði Guðrún Randalín Lárusdóttir, aðstoðarskólameistari Tækniskólans undir námssamningana.
Undirritunin fór fram við formlega athöfn í húsakynnum Rafholts að viðstöddum meðal annars Lilju Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurði Hannessyni framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins sem fluttu ávörp í tilefni undirskriftanna og formlegrar opnunar á Rafrænni ferilbók.
Í máli Sigurðar kom meðal annars fram að „Innleiðing rafrænnar ferilbókar sé enn einn þáttur verkefnisins sem kemur til framkvæmda og má segja að um gjörbyltingu sé að ræða varðandi framkvæmd vinnustaðanáms, en atvinnulífið hafi lengi kallað eftir betra skipulagi og meiri eftirfylgni með náminu. Hann sagði það vera tilvalið að skrifa undir fyrsta nemasamninginn í rafrænni ferilbók í Rafholti en það hafi einmitt verið SART, Samtök rafverktaka sem séu innan raða Samtaka iðnaðarins, sem hófu vinnu við rafræna ferilbók fyrir um það bil tíu árum síðan. Sigurður sagði menntamálaráðherra eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa farið í mestu umbætur á iðnnámi sem átt hafi sér stað um áratuga skeið. „Samtök iðnaðarins binda miklar vonir við þær kerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í og hafa þegar skilað sér í aukinni aðsókn í starfsnám, en rafræna ferilbókin er einn mikilvægasti hlekkurinn í þeim breytingum.“
Nánar er sagt frá þessum viðburði í máli og myndum á vef Samtaka iðnaðarins og vef Stjórnarráðsins