Norrænir meistara í raf- og pípulögnum hittast á NEPU 2023
Ráðstefna samtaka rafverktaka og pípulagningameistara á Norðurlöndunum, NEPU, var haldin 23.-26. ágúst í Finnlandi. Fulltrúar frá Íslandi á ráðstefnunni voru Hjörleifur Stefánsson formaður Samtaka rafverktaka, SART, Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, FP, Gunnar Sigurjónsson frá FP auk Kristjáns D. Sigurbergssonar, framkvæmdastjóra SART og viðskiptastjóra FP.
NEPU ráðstefnan er haldnir árlega og í fyrra var hún haldin á Íslandi. Á ráðstefnuna koma formenn og framkvæmdastjórar meistarafélaga í raf- og pípulögnum. Fulltrúar hvers lands höfðu framsögu í ákveðnum málum sem leiddi svo inn í umræður um stöðu viðkomandi málefnis í hverju landi fyrir sig.
Á ráðstefnunni urðu miklar umræður um menntamál en auk þess voru umræður um nýtingu sólarorku á norrænum slóðum þar sem Norðmenn kynntu mjög áhugaverðar upplýsingar sem þeir hafa tekið saman. En þess má geta að norsku rafverktakasamtökin, NELFO, hafa gefið út vandað fræðsluefni um nýtingu sólarorku í landbúnaði þar sem fram koma mjög ýtarlegar upplýsingar fyrir bændur annars vegar og rafverktaka hins vegar. Þá var töluverð umræða um markaðssetningu á varmadælum og þekkingu sem þarf að vera til staðar við val á búnaði og uppsetningu á honum þannig að orkan og tæknilegir möguleikar búnaðarins nýtist sem best.
Á ráðstefnunni hélt Aapo Cederberg, eigandi og framkvæmdastjóri Cyberwatch Finland, áhugavert erindi um gagnaöryggi og nauðsyn þess að gera ráðstafanir til að verjast vaxandi ógn af völdum tölvuglæpamanna og nefndi sérstaklega að Finnar hafi orðið varir við mikla aukningu á tölvuglæpum eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þá má nefna að Kim Mattsson, Security Policy Advisor, kynnti fyrir fundarmönnum áherslur sem stjórnvöld í Finnlandi eru að beina til finnskra fyrirtækja í ljósi aukinnar ógnar frá Rússlandi eftir inngöngu Finna í NATO.